Viðskipti erlent

Storebrand má yfirtaka SPP

Norska tryggingafélagið Storebrand, sem m.a. er í eigu Kaupþings og Existu, hefur fengið grænt ljós frá norska fjármálaráðuneytinu vegna væntanlegrar yfirtöku á SPP, líftryggingararmi sænska Handelsbanken.

Fyrr í mánuðinum fékk Storebrand leyfi sænska fjármálaeftirlitsins og í lok október samþykkti hluthafafundur Storebrand yfirtökuna. Þar með er fátt sem getur komið í veg fyrir hana.

Í Vegvísi Landsbankans segir að Storebrand muni fjármagna kaupin með útgáfu 200 milljóna hluta á genginu 45 norskar krónur. Gengi Storebrand hefur ekki farið nálægt útboðsgengi á þessu ári en gengi bréfa félagsins er nú í 70 og hefur lækkað nokkuð í markaðssveiflum undanfarinna mánaða.

Leita þarf allt aftur til ársins 2004 til að finna þetta lágt gengi. Afslátturinn kemur nokkuð á óvart en ætti að tryggja að fjármögnun á yfirtökunni gangi eftir þrátt fyrir erfiðar markaðsaðstæður. Með hlutafjáraukningunni er ætlunin að ná í 9 milljarða norskra króna eða um 100 milljarða króna til fjármögnunar á yfirtökunni á SPP.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×