Körfubolti

Fyrsti sigur Fjölnis í efstu deild kvenna frá upphafi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Slavica Dimovska átti afar góðan leik fyrir Fjölni í dag.
Slavica Dimovska átti afar góðan leik fyrir Fjölni í dag. Mynd/Daníel

Fjölnir vann í dag sögulegan sigur á Hamar í Hveragerði þegar liðið vann sinn fyrsta leik í efstu deild kvenna í körfubolta í sögu félagsins.

Leikar fóru 66-61, Fjölni í vil, en þetta var einnig í fyrsta skipti sem Gréta María Grétarsdóttir starfaði sem þjálfari liðsins en hún er einnig leikmaður þess.

Slavica Dimovska átti stórleik fyrir Fjölni í dag en hún skoraði 30 stig og tók níu fráköst. Gréta kom næst með níu stig.

Hjá Hamar var La K. Barkus stigahæst með 29 stig en hún tók þar að auki níu fráköst. Jóhanna Sveinsdóttir kom næst með sjö stig.

Í hinum leik dagsins vann KR yfirburðasigur á Val, 93-57. Staðan í hálfleik var 56-31 en KR-liðið stakk af í lok hálfleiksins.

Monique Martin skoraði 41 stig fyrir KR og tók þar að auki átján fráköst. Hildur Sigurðardóttir náði þrefaldri tvennu er hún skoraði fimmtán stig, tók fjórtán fráköst og gaf ellefu stoðsendingar.

Signý Hermansdóttir gerði slíkt hið sama hjá Val. Hún skoraði 20 stig, vann tólf fráköst og varði ellefu skot. 

Næstar hjá KR komu þær Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir með tólf stig og Sigrún Ámundadóttir með ellefu. 

Yfirburðir KR í leiknum voru miklir en til marks um það tók liðið 66 fráköst, gegn 37 hjá Val. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×