Viðskipti erlent

Færeyingar úthluta olíuborleyfum á ný

 

Færeyingar eru um það bil að verða klárir til að úthluta olíuborleyfum innan efnahagslögsögu sinnar á ný. Reiknað er með að það verði gert öðru hvoru megin við áramótin. Yrði það í þriðja sinn sem Færeyingar gera slíkt.

 

Samkvæmt frásögn um málið á vefsíðunni Business.dk munu alþjóðleg olíufélög fá boð um olíuleit á svæðum sem liggja vestur og norður af þeim sem þegar eru í þróun. Svæðin austur og suður af Færeyjum, sem liggja upp að Shetlandseyjum og kölluð eru "Gullhornið", eru langt komin hvað rannsóknarboranir varðar. Bretlandsmegin á svæðinu er þegar unnin olía fyrir milljarða á hverju ári.

 

Forstöðumaður Jarðfræðistofnunnar Færeyja, Sigurd i Jákupsstovu, segir að frumrannsóknar á þeim svæðum sem bjóða á leit á gefi til kynna að þar sé olíu að finna. Færeyingar hafa þegar gefið út 14 boranaleyfi í lögsögu sinni. Borað hefur verið á fimm stöðum en allsstaðar gripið í þurrt. Hinsvegar hefur bjartsýni aukist á eyjunum um að olía finnst þar að lokum.

 

BP hóf í þessari viku borarir á svokölluðu Williamsbrönd svæði og á sama tíma hefur Chevron hafið undirbúningsrannsóknir á Rosebank svæðinu sem liggur á miðlínunni milli Shetlandseyja og Færeyja. Chevron vinnur þær rannsóknir í samvinnu við DONG, dansk ríkisolíufélagið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×