Körfubolti

Stjarnan vann Skallagrím

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Darrell Flake er hér umkringdur Stjörnumönnum.
Darrell Flake er hér umkringdur Stjörnumönnum. Mynd/Valli

Stjörnumenn komu á óvart í kvöld með góðum sigri á Skallagrími í Iceland Express deild karla, 85-72.

Á sama tíma fór lið Keflavíkur heldur létt með Grindavík og vann öruggan sigur, 95-70.

Hjá Stjörnunni skoraði Dimitar Karadzovski 22 stig og Steven Thomas gerði 20 stig. Stigahæstur hjá Skallagrími var Darrell Flake með 21 stig en þeir Alan Fall og Milojica Zekovic gerðu fjórtán stig hver.

Sigur Keflvíkinga í kvöld var öruggur eins og tölurnar gefa til kynna. Keflvíkingar náðu snemma forystunni og komust í 22-9. Grindvíkingar vöknuðu þó til lífsins af og til í leiknum en náðu aldrei að komast yfir.

Undir lok fyrri hálfleiks var dæmdur ruðningur á Igor Beljanski og fékk hann í kjölfarið tæknivillu fyrir að mótmæla dómnum. Keflavík skoraði því fjögur stig í lok hálfleiksins og kom sér þar með í sautján stiga forystu, 58-41.

Beljanski kom svo ekkert meira við sögu í síðari hálfleik þrátt fyrir að hafa fengið aðeins fjórar villur í leiknum.

BA Walker var stigahæstur Keflvíkinga með 31 stig og hitti hann úr sjö af níu þriggja stiga skotum sínum. Tommy Johnson var með 21 stig og Magnús Þór Gunnarsson tíu auk þess sem hann gaf sex stoðsendingar.

Hjá Grindavík skoraði Páll Axel Vilbergsson sautján stig, Jonathan Griffin fjórtán og Björn Steinar Brynjólfsson tólf.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×