Handbolti

Pirrandi hvað ég fæ fá tækifæri

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Einar Hólmgeirsson hefur lítið fengið að spila með Flensburg í þýsku úrvalsdeildinni.
Einar Hólmgeirsson hefur lítið fengið að spila með Flensburg í þýsku úrvalsdeildinni. Mynd/Pjetur

Einar Hólmgeirsson viriðst ekki mörg tækifæri fá hjá Kent-Harry Andersson, þjálfara Flensburg í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta. Hann gekk til liðs við félagið í sumar og segist vera pirraður vegna stöðu sinnar í liðinu.

"Ég hef líklega fengið að spila í um 10-20 mínútur það sem af er tímabilinu," sagði Einar í samtali við Vísi. "Þegar ég kom til félagsins hélt ég að ég fengi að spila meira. Ég hef rætt þetta mál við þjálfarann og hann segir að ég sé ekki tilbúinn."

Einar gefur lítið fyrir þær skýringar en hann segist vera orðinn heill af meiðslum sínum frá síðasta tímabili.

"Það hefur lítið komið úr mínum samtölum við þjálfarann. Það er mín tilfinning að hann vilji bara nota Alex meira. Hann virðist ofar í goggunarröðinni eins og er."

Alexander Petersson kom einnig til félagsins í sumar en báðir léku þeir með Grosswallstadt á síðasta tímabili.

"Ég er rólegur eins og er en ef þetta fer ekki að lagast fer ég kannski að hugsa minn gang. Ég er tilbúinn að gefa þessu nokkra mánuði en það er samt ljóst að ég kemst ekki í leikæfingu ef ég fæ ekkert að spila."

Framundan eru margir stórleikir hjá Flensburg, bæði gegn Kiel og Hamburg í þýsku úrvalsdeildinni og gegn Ólafi Stefánssyni og félögum í Ciudad Real í Meistaradeildinni.

"Ég býst nú ekki við því að fá að spila mikið þá þar sem ég hef lítið fengið að spila gegn lélegari liðum deildarinnar. En það eru margir leikir framundan og þetta verður að fá að hafa sinn gang." 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×