Viðskipti erlent

Óttast að tapa innistæðum sínum

Felmtri slegnir viðskiptavinir Northern Rock bankans Í Bretlandi streyma í útibú bankans til að taka út innistæður sínar eftir að bankinn fékk neyðarlán hjá Seðlabanka Englands í gær.

Vandinn vegna annars flokks húnsæðislána í Bandaríkjunum hefur teygt sig rækilega til Bretlands. Stærsti fasteignalánabanki landsins er í vandræðum og varð í gær að leita á náðir seðlabanka landsins og sækja þangað neyðarlán.

Þetta er í fyrsta sinn sem breski seðlabankinn veitir slíkt lán frá því hann var gerður óháður bresku ríkisstjórninni 1997 og fékk það hlutverk að veita slík lán.

Lausafjárstaða Northern Rock mun ekki næg og erfiðlega gengið að sækja lánsfé til annarra lánastofnana þar sem vextir hafa hækkað og slíkar stofnanir halda nú að sér höndum frekar en hitt. Afkomuviðvörun hefur verið gefin út fyrir Northern Rock. Sérfræðingar á breskum fjármálamarkaði og fjármálaráðherra Breta, Alistair Darling, segja þó að þeir sem geymi sparifé sitt hjá þeim þurfi ekki að hafa áhyggjur.

Þrátt fyrir það mynduðust langar biðraðir í gær og í morgun fyrir utan útibú Northern Rock áhyggjufullir viðskiptavinir sem vildu sækja fé sitt áður en verr færi. Álagið á netbankann var slíkt að ekki komust nærri allir þar inn til að færa fé sitt á milli.

Verð á hlutabréfum Northern Rock hrundi um þrjátíu prósent í bresku Kauphöllinni í Lundúnum í gær. Vandi bankans hafði áhrif á aðrar fjármálastofnanir í Bretlandi. Verð á hlutabréfum í Alliance og Leicester, Brandford & Bingley lækkaði um sex til sjö prósent og verð á bréfum í HBOS og Barclays um þrjú komma fimm prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×