Félag viðskipta- og hagfræðinga (FVH) efnir til ráðstefnunnar og verðlaunaafhendingarinnar Íslenski þekkingardagurinn á Nordica hóteli fimmtudaginn 22. febrúar í næstu viku. Þetta er í sjöunda sinn sem ráðstefnan er haldin. Þema hennar að þessu sinni er samrunar og yfirtökur.
Á ráðstefnunni verður því fyrirtæki sem þykir hafa skarað fram úr á síðasta ári veitt verðlaun fyrir vel heppnaðan samruna og yfirtökur. Þrjú fyrirtæki eru tilnefnd í þessum flokki. Þau eru Actavis, sem í tvígang hefur hlotið verðlaunin, Össur og Marel, sem hlaut verðlaunin árið 2002.
Að sama skapi verður einstaklingi veitt verðlaun sem þykir hafa skarað fram úr á sviði viðskiptafræði eða hagfræði á síðasta ári.
Fjöldi fyrirlesara verður á ráðstefnunni. Á meðal þeirra eru Erlendur Hjaltason, forstjóri Exista, Margrét Guðmundsdóttir, forstjóri Icepharma, Heiðar Guðjónsson, Novator, Scott Mueller, forstjóri Cass Business School, og Ralph A. Walkling, framkvæmdastjóri í Center for Corporate Governance LeBow College of Business. Ráðstefnustjóri er Bjarni Benediktsson alþingismaður.
Ráðstefnan hefst klukkan 13.15 og er gert ráð fyrir að henni ljúki klukkan 17.