Viðskipti erlent

Undirmálslánin talin kosta 24.000 milljarða kr. tap

Greiningardeild Deutsche Bank telur að þegar upp er staðið hafi undirmálslánin á bandaríska fasteignamarklaðinum kostað fjármálafyrirtæki um 400 milljarða dollara eða 24.000 milljarða kr.

Stærstu bankar og verðbréfasalar á Wall Street þurfa að afskrifa um þriðjung þessarar upphæðar eða 130 milljarða kr. en afgangurinn lendir svo á smærri bönkum og fjármálafyrirtækjum innan og utan Bandaríkjanna.

Citigroup, Merill Lynch og Morgan Stanley hafa þurft að afskrifa samtals 40 milljarða dollara nú þegar vegna undirmálslánanna og greiningardeildir víða um heim telja að öll kurl séu síður en svo komin til grafar vegna þessara lána.

Talið er að heildarupphæð undirmálslána nemi nú 1,2 trilljónum dollara og segir greiningardeild Deutsche Bank að afskrifa þurfi á milli 30 og 40% af þeirri upphæð.

Íslenskir bankar og fjármálafyrirtæki hafa að mestu sloppið þar sem enginn þeirra spilaði að nokkru ráði á fasteignamarkaðinum vestanhafs. Þeir eins og allir aðrir í heiminum hafa þó ekki sloppið við óbeinar afleiðingar svo sem hækkandi verð á lánsfé og miklar sveiflur á hlutabréfamörkuðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×