Viðskipti erlent

Mikil verðfall á asískum og evrópskum mörkuðum

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar
Seðlabanki Japans reyndi að koma ró á markaði í dag með því að tilkynna um frekari innspýtingu fjármuna á markað.
Seðlabanki Japans reyndi að koma ró á markaði í dag með því að tilkynna um frekari innspýtingu fjármuna á markað. MYND/AP
Hlutabréfamarkaðir í Asíu og Evrópu féllu mikið við opnun í morgun í kjölfar áframhaldandi óvissu um áhrif samdráttar á bandarískum fasteignalánamarkaði.

Mikil taugaveiklun einkenndi markaði í morgun. FTSE vístalan í London lækkaði um rúm tvö prósent þegar markaðir opnuðu í morgun og hefur hún lækkað um rúm tíu prósent á rúmum mánuði. Hlutabréfavísitala í Suður-Kóreu lækkaði um sex og hálft prósent, og voru viðskipti þar stöðvuð um tíma. Þá lækkaði Nikkei vísitalan í Japan um 2,7 prósent, og Hang Sen vísitalan í Hong Kong um fjögur.

Þetta gerist í kjölfar þess að hlutabréfamarkaðir í Bandaríkjunum lækkuðu enn eina ferðina í gær. Sjö milljarða dollara innspýting seðlabankans þar í landi virðist ekki hafa náð að slá á ótta manna um að hlutabréf kunni að lækka enn meira á næstu dögum. Í gær fór Dow Jones vísitalan niður fyrir 13 þúsund stig í fyrsta sinn síðan í apríl. Nasdaq-vísitalan lækkaði um 1,6 prósent, og hefur hefur ekki verið lægri frá áramótum.

Ástæðurnar fyrir lækkuninni nú eru þær sömu og síðustu daga; samdráttur á bandarískum fasteignalánamarkaði sem hafði áhrif á lánastofnanir þar í landi og leitt til lausafjárskorts.

En þá spilar inn í að fyrirtæki í Bandaríkjunum, ekki síst Wal-Mart og byggingavörukeðjan Home Depot, reikna með verri afkomu á fjórðungnum þar eð líklegt þyki að neytendur haldi að sér höndum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×