Viðskipti erlent

Árslaun á einum degi

Malavíska hagkerfið er rúmlega helmingi minna en hið íslenska, þrátt fyrir að í Malaví búi tæplega fjórtán milljónir manna.
Malavíska hagkerfið er rúmlega helmingi minna en hið íslenska, þrátt fyrir að í Malaví búi tæplega fjórtán milljónir manna.

Afríkulýðveldið Malaví er meðal fjögurra fátækustu þjóða í veröldinni. Landsframleiðsla árið 2006 nam 513 milljörðum íslenskra króna. Í Malaví búa um 13,6 milljónir manna, þótt íbúatölur séu á reiki eins og í mörgum Afríkuríkjum. Landsframleiðsla á mann nemur því rúmlega 37.600 íslenskum krónum.



Til samanburðar var þjóðarframleiðsla á Íslandi árið 2006 1.142 milljarðar íslenskra króna eða rúmlega 3,8 milljónir á mann sé miðað við að Íslendingar séu þrjú hundruð þúsund. Samkvæmt þessum tölum er malavíska hagkerfið tæplega helmingi minna en það íslenska, þrátt fyrir að þar búi rúmlega fjörutíu og fimm sinnum fleiri. Íslenska hagkerfið er því hundrað og einu sinni stærra en hið malavíska sé miðað við höfðatölu.

Meðalárstekjur í Malaví nema um ellefu þúsund íslenskum krónum. Árið 2005 voru meðalárstekjur Íslendings 2.945.000 krónur. Samkvæmt því er meðal Íslendingur rétt rúmlega einn vinnudag að vinna sér inn árstekjur Malava.



Malavíska hagkerfið byggist að stærstum hluta á landbúnaði. Tæplega fjörutíu prósent landsframleiðslu verður til í landbúnaðargeiranum og áttatíu prósent útflutningstekna. Rúmlega áttatíu prósent vinnuafls hefur viðurværi af landbúnaði. Raunar er það svo að einungis fimmtán prósent Malava eru í launaðri dagvinnu, aðrir stunda sjálfsþurftarbúskap eða fiskveiðar sér til lífsviðurværis.



Helstu landbúnaðarafurðir eru tóbak, te og sykur. Maísræktun er gríðarlega útbreidd meðal sjálfsþurftarbænda og maís er undirstöðufæða landsmanna. Raunar er það svo að bregðist maísuppskeran verður hungurs­neyð í landinu. Árin 2003 og 2004 varð alger uppskerubrestur og að minnsta kosti fjörutíu og sex þúsund börn þjáðust af alvarlegri vannæringu samkvæmt tölum Flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR). Þrátt fyrir að síðustu ár hafi maísuppskeran verið góð er ekki óalgengt að sjá níu til tíu ára börn sem líta út fyrir að vera fjórum til fimm árum yngri. Þessi börn eru fórnarlömb hungursneyðar. Vegna vannæringar hafa þau ekki náð líkamlegum þroska í samræmi við aldur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×