Viðskipti erlent

Með fimmtungshlut í Sampo

Lýður Guðmundsson stjórnarformaður, Sigurður Valtýsson, og Erlendur Hjaltason forstjórar.
Lýður Guðmundsson stjórnarformaður, Sigurður Valtýsson, og Erlendur Hjaltason forstjórar.

Exista hf. fer nú með A-hluti í finnska tryggingafélaginu Sampo sem nema 19,93 prósentum af heildarhlutafé í félaginu, samkvæmt tilkynningu til kauphallarinnar í Helsinki. Exista kynnir í dag hálfsársuppgjör félagsins.

Samkvæmt finnskum lögum má félagið eiga allt að 20 prósentum án þess að til þurfi sérstakt leyfi ISA, finnska tryggingaeftirlitsins.

Fram kemur í tilkynningunni að Exista og samstæðufélög hafi í gær nýtt réttindi samkvæmt afleiðusamningum sem áður höfðu verið tilkynntir og farið þar með yfir 15 prósenta flöggunarmörk. „Nemur hlutur félagsins nú 15,58 prósentum af útgefnu hlutafé í Sampo. í tilkynningunni kemur einnig fram að Exista Trading ehf., dótturfélag Exista, hefur gert sambærilega samninga sem gefur því tilkall til 4,35 prósenta hlutafjár í Sampo til viðbótar," segir í tilkynningu til Kauphallarinnar hér. Haft er eftir Lýði Guðmundssyni stjórnarformanni Exista að litið sé á Sampo sem kjölfestueign til langs tíma, en félagið sé hlutdeildarfélag í reikningum Exista. „Því er rökrétt að við aukum hlut okkar í Sampo sem þessu nemur og undirstrikum þannig enn frekar trú okkar félaginu."



Sampo Oyj er leiðandi á norrænum tryggingamarkaði auk þess að vera umsvifamikill fjárfestir. Félagið er skráð á OMX Nordic Exchange í Helsinki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×