Handbolti

Elías Már að hætta hjá Rostock

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Elías Már Halldórsson í leik með Stjörnunni í fyrra.
Elías Már Halldórsson í leik með Stjörnunni í fyrra.

Elías Már Halldórsson handboltamaður hefur samið um starfslok við þýska 1. deildarliðið Empor Rostock.

Liðið á í miklum fjárhagserfiðleikum og hefur Elías Már ekki fengið greidd laun í tvo mánuði.

„Ég komst að samkomulagi við liðið að fá að hætta um áramótin. Ég er ekki einn um það. Það eru aðrir leikmenn að reyna að fara sömu leið og ég. Útlitið er ekki bjart hjá félaginu og ekki útlit fyrir annað en að það verði gjaldþrota."

Elías Már sagði að steininn hefði tekið úr þegar leikmenn komust að því að þeir væru búnir að spila hálft tímabilið ótryggðir.

„Þá var ekki annað í stöðunni en að reyna að komast í burtu."

Hann sagðist ekki vita hvað tæki við en hann veit þó af áhuga erlendra liða.

„Ég ætla bara að skoða mína möguleika í rólegheitum. Það kæmi líka vel til greina að koma heim. Þetta er auðvitað erfiður tími til þess að skipta um félag en oft hefur maður bara ekkert val. Ég frétti svo síðar að þeir voru afar fegnir því að fá mig lausan undan samningi því þeir höfðu sagt umboðsmanni mínum að þeir vissu ekkert hvernig þeir ættu að standa við launagreiðslur út tímabilið."

Elías Már ætlar að leika tvo leiki til viðbótar fyrir félagið, annan á morgun en hinn á Þorláksmessu.

„Ég gerði samkomuleg við þá um að þeir myndu greiða mér þau laun sem þeir skulda mér gegn því að ég spilaði þessa leiki. Ég hef reyndar ekkert fengið enn en mér hefur verið lofað öllu fögru."

Hann sagði þetta vitanlega vera mikil vonbrigði.

„Þetta eru gríðarleg vonbrigði. Ég var búinn að fórna miklu fyrir þetta."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×