Hinn langþráði iPhone sími er kominn í almenna sölu í Bandaríkjunum. Fjölmargir biðu fyrir utan sölustaði Apple og AT&T til að tryggja sér eintak. Mikil fagnaðarlæti brutust út þegar verslanirnar opnuðu klukkan tíu í gærkvöldi að íslenskum tíma. Síminn kemur á Evrópumarkað síðar á þessu ári. Dagsetningar hafa ekki verið tilkynntar.
IPhone hefur að geyma margar skemmtilegar tækninýjungar, svo sem sérhannaðan snertiskjár. Þá er hægt að hlusta á tónlist í símanum, horfa á kvikmyndir og vafra um á netinu. Tvær útgáfur eru fáanlegar, annars vegar með fjögurra gígabæta minni og hins vegar með átta gígabæta minni. Sú fyrrnefnda kostar 500 dollara en sú síðarnefnda 600 dollara.