Viðskipti innlent

Sjálfstæðismenn eru samstiga um útrás

Svavar Hávarðsson skrifar
Höfuðstöðvar Landsvirkjun hefur stofnað dótturfyrirtæki sem mun sinna verkefnum á erlendri grund.
Höfuðstöðvar Landsvirkjun hefur stofnað dótturfyrirtæki sem mun sinna verkefnum á erlendri grund.
Geir H. Haarde forsætisráðherra segir það af og frá að Sjálfstæðisflokkurinn sé hugmyndafræðilega klofinn varðandi útrás og áhættufjárfestingar orkufyrirtækja í almannaeigu. Hann segir stofnun nýs útrásararms Landsvirkjunar, Landsvirkjun Power, og fyrirhugaða útrás Orkuveitu Reykjavíkur í gegnum Reykjavík Energy Invest ekki samanburðarhæf mál.

Landsvirkjun, sem er sameignarfélag í eigu ríkisins, hefur stofnað dótturfyrirtækið Landsvirkjun Power. Um hlutafélag er að ræða sem mun taka þátt í útrásarverkefnum Landsvirkjunar í orkumálum. Starfsmenn verða á milli þrjátíu og fjörutíu í fyrstu og eigið fé félagsins verður átta milljarðar króna. Fyrirtækið mun taka til starfa um áramót. Fyrirtækinu verður kleift að taka þátt í samstarfsverkefnum í gegnum dótturfyrirtæki eins og Hydrocraft Invest, sem Landsvirkjun Power á til helminga á móti Landsbanka Íslands.

Geir segir að með stofnun Landsvirkjunar Power sé ríkisfyrirtæki að búa til umgjörð um framkvæmdir innanlands og fjárfestingar í útlöndum.

„Þetta er gert með að setja upp hlutafélag með takmarkaðri ábyrgð eins og eðlilegt er. Þetta er starfsemi sem Landsvirkjun hefur verið í um nokkurra ára skeið og ekkert nýtt í því. Landsvirkjun hefur frá upphafi verið í áhættusamri starfsemi því það að reisa virkjanir á Íslandi er fjarri því að vera áhættulaust. Það hefur verið góð samstaða á meðal sjálfstæðismanna í gegnum árin um að fyrirtækið stæði í slíkri starfsemi.“

Hvað deilur um REI varðar og vilja borgarfulltrúa flokksins um að selja hlut Orkuveitu Reykjavíkur í REI á sínum tíma, segir Geir að það sé að verulegu leyti frábrugðið mál. „Landsvirkjun stendur ein að stofnun þessa fyrirtækis. Það varð klúður í sambandi við REI þegar verið var að fá einkaaðila til samstarfs. Það misheppnaðist og fleiri atriði varðandi það mál eru ekki til staðar hvað varðar stofnun dótturfyrirtækis Landsvirkjunar nú.“

Aðspurður hvort landsfundarsamþykkt Sjálfstæðisflokksins í vor, þar sem aðkoma einkafyrirtækja að útrás orkufyrirtækja var talin eðlileg, geti talist hin opinbera stefna Sjálfstæðisflokksins, svarar Geir játandi. Hann segir að innan Landsvirkjunar hafi byggst upp mikil reynsla og verðmæti sem eðlilegt sé að fyrirtækið nýti sér í þágu almennings.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×