Kristján Kristjánsson hefur látið af störfum sem forstöðumaður upplýsingasviðs FL Group. Starfsmönnum var tilkynnt um ákvörðunina í gær.
Kristján, sem áður var í Kastljósi Sjónvarpsins, var ráðinn til starfa hjá félaginu í fyrrahaust og hefur því starfað hjá félaginu í rétt rúmt ár.
Starfslok Kristjáns koma í kjölfar þess að Halldór Kristmannsson viðskiptafræðingur, sem áður sinnti samskiptamálum fyrir Actavis, var ráðinn framkvæmdastjóri samskiptasviðs FL Group í síðasta mánuði. Halldór tók yfir starfssvið sem áður voru á könnu Kristjáns en honum er ætlað að bera ábyrgð á öllum samskiptamálum FL Group, þar á meðal samskiptum við fjárfesta, fjölmiðla, innri samskiptum og ímyndaruppbyggingu félagsins.