Viðskipti innlent

Gósentíð fyrir íslenska listamenn

Hólmfríður Helga Sigurðardóttir skrifar
Bragi Guðlaugsson veggfóðrarameistari hefur safnað íslenskri list í hátt í þrjátíu ár. Meira en tvö hundruð verk þekja veggi heimilis hans.
Bragi Guðlaugsson veggfóðrarameistari hefur safnað íslenskri list í hátt í þrjátíu ár. Meira en tvö hundruð verk þekja veggi heimilis hans. MYND/Anton

Velmegun og aukinn áhugi, bæði almennings og sterkra fjárfesta, hefur gefið sölu íslenskrar myndlistar aukinn kraft. Fyrir vikið hefur verð á íslenskum verkum rokið upp á stuttum tíma. Bragi Guðlaugsson veggfóðrarameistari er ábyggilega með virkustu listaverkasöfnurum landsins. Hann keypti sitt fyrsta málverk um miðjan áttunda áratuginn. Síðan hefur hann ekki hætt. Í dag á hann meira en tvö hundruð verk eftir marga af ástsælustu listmálurum Íslands.

Þótt Bragi hafi aldrei litið á söfnun sína sem fjárfestingu hefur safn hans margfaldast í virði á fáeinum árum. Má því segja að áhugamálið hafi breyst í prýðis­fjárfestingu. „Verð á íslenskri myndlist hefur hækkað verulega að undanförnu. Maður hefur nýtt það á uppboðum, látið góðar millimyndir og fengið eina eða tvær perlur í staðinn eftir aðra. Ég hef til dæmis verið að skipta myndum til að kaupa Kristján Davíðsson og Þorvald Skúlason. Það eru góð skipti.“ Bragi er illfáan­legur til að leggja peningalegt mat á málverkasafn sitt, enda breytist það frá einu tímabili til annars. Hann fæst þó til að meta það á eins og eitt gott einbýlishús.

Hvorki þó einbýlishús í Vesturbæ Reykjavíkur eða í litlum bæ á landsbyggðinni. „Eigum við ekki bara að segja einhvers staðar þar á milli, eins og kannski gott einbýlis­hús í Fossvoginum?“

Sveinn Þórhallsson, einn eigenda Gallery Turpentine, tekur undir orð Braga. Hann segir mikla breytingu hafa orðið á listaverkamarkaðnum á síðastliðnum tveimur árum. „Nú eru góð verk að seljast fyrir himinháar upphæðir sem ekki sáust áður. Verk eftir suma listamenn hafa allt að því tvöfaldast í verði, til dæmis verk eftir Kristján Davíðsson, Húbert Nóa og Georg Guðna. Þau hafa verið að fara á allt að fimm til sex milljónir króna.“ Þá segir hann að verk eftir yngri listamenn eigi einnig meira upp á pallborðið en nokkru sinni fyrr. „Samtímalist er sem betur fer sjóðandi heit í dag.“

Allir veggir einbýlishúss Braga í Háaleitishverfi eru þaktir listaverkum, frá gólfi og upp að lofti. Hann á nokkrar þjóðar­gersemar sem hann segir sjálfur að ættu best heima á söfnum. „Ég á eina mynd eftir Kjarval sem er úr seríunni Andlit að austan, eina af fáum myndum úr þeirri seríu sem eru ekki í eigu Listasafns Íslands, að ég best veit.“ Þá á hann olíumynd af tröllum eftir Mugg, Tröllagleði, sem mun vera mikill dýrgripur.

Bragi hefur sýnt myndir úr safni sínu oftar en einu sinni. Í sumar sýndi hann tólf myndir eftir Kristján Davíðsson í Gallerí Fold og á milli tuttugu og þrjátíu myndir eftir Þorvald Skúlason í fyrrasumar. Auk mynda eftir þá á hann talsvert af myndum eftir Jóhannes Jóhannesson, Guðmundu Andrésdóttur og Karl Kvaran, sem öll eru í miklu uppáhaldi hjá honum. Mörgum þeirra kynntist hann persónulega. Hann keypti til að mynda allar myndirnar beint af þeim Jóhannesi, Karli og Guðmundu. Af yngri listamönnum á hann meðal annars verk eftir Eggert Pétursson, Georg Guðna, Húbert Nóa og Helga Þorgils.

Hvað knýr áhugann segir Bragi ekki gott að segja til um. „Kannski er þetta eitthvað úr æskunni, ég átti nú aldrei mikið af leikföngum,“ segir hann og hlær. „En í alvöru talað er það bara fegurðin og krafturinn sem dregur mig að myndunum.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×