Viðskipti innlent

Nýr forstjóri stýrir fjöreggi Marel Food Systems

Sigsteinn P. Grétarsson Nýráðinn forstjóri Marels ehf.
Sigsteinn P. Grétarsson Nýráðinn forstjóri Marels ehf. MYND/Valli
Það er mjög gaman að standa í þessu,“ segir Sigsteinn P. Grétarsson, nýráðinn forstjóri Marel ehf. Sigsteinn tók við stýrinu í sumar þegar tilkynnt var um skipulagsbreytingar hjá fyrirtækinu í kjölfar viðamikillar samþættingar á starfsemi fyrirtækisins vegna kaupa á breska matvælavinnslufyrirtækinu AEW Delford og danska félaginu Scanvaegt í fyrra. Í þeim tók Sigsteinn leiðandi þátt en Marel ehf., varð við þetta sjálfstæð eining innan samstæðu Marel Food Systems við hlið fyrirtækjanna beggja auk Carnitech og framleiðslufyrirtækis í Slóvakíu. kynntist konunni í þýskalandi

Sigsteinn útskrifaðist úr vélaverkfræði frá Bradley University í Bandaríkjunum árið 1990. Hann tók meistaragráðu í sama fagi frá University of Illinois at Urbana-Champaign tveimur árum síðar. Að því loknu hóf hann störf hjá verkfræðistofu Hans Dönges í Þýskalandi. Hann vann að ráðgjafastörfum fyrir banka og fjármálafyrirtæki í Frankfurt, þar á meðal nokkra af stærstu bönkum heims, JP Morgan og Morgan Stanley. Sig-steinn var í fimm ár í Þýskalandi, sem efalítið var góður tími því þar hitti hann verðandi eiginkonu sína sem þar starfaði á sama tíma hjá þýsku stórfyrirtæki sem framleiðir varahluta í bíla og fleira.

„En það er alltaf naflastrengur sem dregur mann heim aftur,“ segir Sigsteinn og á þar við að hann hafi snúið aftur til Íslands árið 1997. Hingað kominn hóf hann nær samstundis störf hjá Marel.

Sigsteinn hefur víða komið við innan veggja fyrirtækisins, meðal annars gegnt störfum verkefnastjóra, ráðgjafa og svæðissölustjóra, svo sem við markaðssetningu Marels í Bandaríkjunum á árabilinu 1997 til 1998 og í Evrópu næstu árin á eftir. Árið 2001 fluttist hann svo til Ástralíu og stofnaði þar dótturfélag Marels. Hann segir nokkuð erfitt að flytjast búferlum með fjölskylduna, konu og tvær dætur á leik- og grunnskólaaldri, ekki síst svona langt frá heimalandinu. „En það sem skiptir máli fyrir fólk sem flytur á milli landa með börn er fyrst og fremst að gera sér grein fyrir því út í hvað þau eru að fara, fyrsta árið er alltaf erfiðast,“ segir Sig­steinn sem var framkvæmdastjóri Marels í Ástralíu í fjögur ár.

Nýja-Sjáland, sem er á sama markaðssvæði og Ástralía í plöggum Marel Food Systems, er með stærstu útflytjendum á lambakjöti í heiminum. „Þeir ná að flytja út ferskt lambakjöt allt árið um kring og vilja ná hámarksnýtingu við framleiðsluna,“ segir Sigsteinn til að undirstrika mikilvægi landsins á matvælavinnsluvélamarkaði. Marel hefur komið sér vel fyrir á þessu svæði en starfsmenn í Ástralíu er um 20 talsins og vermir annar Íslendingur stól Sigsteins þar í landi.

Gott samstarf við iðnaðinnÞegar störfum Sigsteins lauk ytra sneri hann og eiginkona hans aftur til Íslands. Dæturnar voru þá orðnar þrjár og sú fjórða á leiðinni. Hann hóf störf hjá höfuðstöðvum fyrirtækisins hér og tók þar við stöðu framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar sem sinnir erlendum mörkuðum. „Íslenskur iðnaður er mjög opinn fyrir nýjungum sem sést best á því að hann fjárfestir mikið í nýrri tækni til að ná fram hámarksnýtingu,“ segir Sig­steinn og bendir á að Marel hafi notið góðs af samstarfinu við íslensk fyrirtæki. Enda hafi það leitt af sér góða vöru sem hægt sé að selja til fleiri landa, svo sem til Nýja-Sjálands en þangað var sem dæmi seld fyrir nokkru stór flæðilína fyrir vinnslu á lambakjöti sem þróuð var í samstarfi við Norðlenska á Húsavík. „Það hefði ekki verið hægt að selja hana áfram án samstarfs við fyrirtæki hér heima,“ segir hann. Erfitt að samþætta

Í kjölfar kaupa Marels á dönsku fyrirtækjunum Carnitech og Scanvaegt og breska matvælafyrirtækinu AEW Delford í fyrra hófst viðamikil samþætting á starfseminni. Í henni fólst að öll dótturfélög Marels víða um heim voru færð undir eitt merki móðurfélagsins Marel Food Systems og skrifstofur og framleiðsla sameinuð undir einu þaki. Sigsteinn tekur sem dæmi að dótturfyrirtækin hafi verið með starfsemi á fjórum stöðum í Bandaríkjunum. Hún hafi nú verið sameinuð undir einu þaki í Kansas City og verða nýjar höfuðstöðvar Marel Food Systems opnaðar formlega þar í borg í næsta mánuði.

En sameiningin þýðir annað og meira. „Þetta þýðir að úti verður öflug markaðs- og söludeild en á Íslandi stendur fjöreggið eftir, sú nýsköpun og vöruþróun sem einkennt hefur Marel frá fyrstu tíð,“ segir Sigsteinn og bætir við að vörurnar sem Marel búi til hér verði seldar í gegnum sölu- og dreifikerfi Marel Food Systems um allan heim, svo sem í Evrópu, Asíu og í Bandaríkjunum. Sömu sögu er að segja af hinum einingunum þremur sem nýta samlegðaráhrifin sem kaupin gáfu kost á og nota sama sölu- og dreifikerfi móðurfélagsins.

Sigsteinn viðurkennir að þótt samþættingarferlið hafi verið erfitt sé vinnan einkar skemmtileg. „Hún heldur manni í þessu, það er líka svo skemmtilegt starfsfólk hérna,“ segir hann og hlær.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×