Viðskipti erlent

Skapvondur forstjóri

Economist | Michael O‘Leary, forstjóri Ryanair, eins stærsta lággjaldaflugfélags í Evrópu, fær heldur kaldar kveðjur í nýrri bók um sögu flugfélagsins. Í bókinni er sérstaklega tæpt á aðkomu O‘Learys, sem virðist hafa verið plataður í forstjórastólinn af stofnanda fyrirtækisins árið 1988 á þeim forsendum einum að hann fengi fjórðung af öllum hagnaði flugfélagsins umfram tvær milljónir punda.

Flugfélagið átti í verulegum rekstrarerfiðleikum og tók O‘Leary strax til við niðurskurð á rekstrarkostnaði með það eitt fyrir augum að skara eld að sinni köku. Breska vikuritið Economist bendir á að þótt margar af hugmyndum O‘Learys hafi verið til fyrirmyndar þá séu þær aðeins til þess fallnar að leggja meira í launa­umslag hans. Í umfjöllun sinni um bókina dregur Economist sérstaklega fram skapgerð forstjórans, sem virðist einkar slæm. Skapvonskan virðist hafa smitað út frá sér út í alla starfsemi fyrirtækisins, sem virðist fátt gera til að gera ferðir viðskiptavina sinna ánægjulegar. Sérstaklega er tekið fram að O‘Leary neitaði að koma nálægt vinnslu bókarinnar og hefur Economist eftir honum að bækur um viðskipti séu þvættingur og að höfundar þeirra séu aumingjar.



 

Álögur á viðskiptavini

Guardian | Og enn af Ryanair. Frá og með 20. september ætlar flugfélagið að rukka viðskiptavini sína sem ferðast með meira en handfarangur um tvö pund aukalega sem greiðast við innritunarborð. Þeir sem einungis eru með handfarangur þurfa ekkert að greiða. Þótt þetta jafngildi einungis um 260 íslenskum krónum er flugfélagið sakað um argasta dónaskap fyrir að seilast með þessum hætti ofan í vasa farþega, sem alla jafna greiða afar lítið fyrir ferðina með vélum Ryanair.

Hins vegar ber að hafa í huga að 42,5 milljónir manna fljúga að meðaltali með vélum Ryanair á ári hverju. Breska dagblaðið Guardian hefur eftir talsmanni flugfélagsins að álögurnar séu enn einn liðurinn í niðurskurði á rekstrarkostnaði flugfélagsins. Þá sé stefnt að því að minnka álagið við innritunarborðin auk þess að gera flugvélarnar léttari. „Við ætlum ekki að græða á þessu,“ sagði talsmaðurinn og benti á að með aðgerðunum væri verið að ýta undir að farþegar Ryanair nýttu sér möguleikann á því að innrita sig sjálfir í flug í tölvu, sem finna megi víða á flugstöðvum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×