Viðskipti erlent

Pundið í methæðum

Bretar sækja nú í auknum mæli til Bandaríkjanna, enda Bandaríkjadalur í kjallaranum meðan sterlingspundið hefur sjaldan staðið styrkari fótum.
Bretar sækja nú í auknum mæli til Bandaríkjanna, enda Bandaríkjadalur í kjallaranum meðan sterlingspundið hefur sjaldan staðið styrkari fótum.

Breska pundið hefur styrkst gríðarlega gagnvart Bandaríkjadal undanfarin misseri og nú er svo komið að fyrir eitt breskt pund fást rúmlega 2,02 Bandaríkjadalir. Pundið hefur ekki staðið styrkara gagnvart Bandaríkjadal í 26 ár.

Englandsbanki hefur undanfarin misseri hækkað stýrivexti jafnt og þétt og standa vextirnir nú í 5,5 prósentum. Sérfræðingar spá að stýrivextir verði hækkaðir um fjórðung úr prósenti næstkomandi fimmtudag, og er jafnvel búist við frekari hækkunum á næstu misserum.

Lækkanir á húsnæðisverði, auk varkárni fjárfesta hefur valdið því að Bandaríkjadalur hefur veikst gagnvart helstu gjaldmiðlum. Evran hefur aldrei staðið betur gagnvart Bandaríkjadal, 1,36 dalir fást nú fyrir hverja evru.

Þrátt fyrir styrka stöðu pundsins hefur eftirspurn eftir breskum varningi ekki dregist saman og útflutningur raunar aukist. Breskir ferðamenn sækja nú til Bandaríkjanna í áður óþekktum mæli enda afar hagstætt að versla vestanhafs nú um stundir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×