Íslenskir þjófar 5. júní 2007 10:26 Íslendingar eru í öðru sæti yfir þjóðir sem nota mest af ólöglegum hugbúnaði. Aðeins Aserbaídsjan er fyrir ofan Ísland á lista tímaritsins The Economist yfir þær þjóðir sem hafa mest af illa fengnum hugbúnaði í hverri tölvu. Meira en helmingur þess hugbúnaðar sem er í notkun í íslenskum tölvum, eða 53 prósent, er tekinn ófrjálsri hendi. Þetta er um það bil tvöfalt hærra hlutfall af stolnum hugbúnaði en er í notkun á hinum Norðurlöndunum ef marka má árlega rannsókn alþjóðlegra samtaka hugbúnaðarframleiðenda, Business Software Alliance. Í rannsókn þeirra samtaka komast Norðmenn næst Íslendingum í hlutfalli ólöglegs hugbúnaðar með 29 prósent en á öðrum Norðurlöndum er hlutfallið lægra. Hugverkaþjófnaður er vissulega landlægur ósiður. Svo virðist sem virðing fyrir eignarétti sé minni ef um hugverk er að ræða heldur en þegar fengist er við áþreifanlega hluti. Dæmi um þetta eru birtingar og fjölföldun á ljósmyndum og texta sem algeng er án þess að til komi leyfi eða greiðsla fyrir. Um þverbak keyrir svo í umgengni við hugbúnað og annað efni sem tengist tölvum, svo sem tónlist og kvikmyndir sem hægt er að hlaða niður af netinu eða fjölfalda og flytja á milli tölva með öðrum hætti. Þjófnaður á hugbúnaði er í engu frábrugðinn öðrum þjófnaði. Þegar hugbúnaður er tekinn ófrjálsri hendi jafnast það á við að ganga inn í verslun, taka það úr hillum sem mann vanhagar um og fara svo út án þess að greiða fyrir vöruna. Eða kannski er nær að nota þá samlíkingu að þjófnaður á hugbúnaði sé eins og að ráða smið til starfa en láta sér ekki detta í hug að greiða honum laun fyrir vinnu sína. Stuldur á hugbúnaði er vissulega ekki eins sýnilegur og þessi dæmi en engu að síður er um sambærilegan þjófnað að ræða. Vara er tekin og notuð án þess að greiða fyrir hana. Óhætt er að taka undir orð Halldórs Jörgenssonar, framkvæmdastjóra Microsoft á Íslandi, um að þessi stórfelldi þjófnaður á hugbúnaði sé hugverkaþjóð til skammar. Það er áreiðanlega rétt mat hjá Friðriki J. Skúlasyni tölvunarfræðingi að flestar opinberar stofnanir og stærri fyrirtæki séu með hugbúnaðarmál sín í þokkalegu lagi. Vandinn liggur áreiðanlega fyrst og fremst í heimilistölvum almennings, sem gerir ekki vandann átækilegri. Ljóst er að gagnger hugarfarsbreyting þarf að koma til í umgengni við hugbúnað og annað tölvutækt efni. Almenningur í landinu verður að hætta að líta á þessa hluti eins og almenningseign og horfast í augu við að fyrir hugbúnað þarf að greiða eins og annan varning sem tilheyrir neyslu nútímamannsins. Þeir sem ekki gera það eru einfaldlega þjófar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Steinunn Stefánsdóttir Mest lesið Tala aldrei um annað en vextina Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Akranes hefur vaxið hratt – nú er tími til að hlúa að fólkinu Liv Åse Skarstad Skoðun Er íslenskan sjálfsagt mál? Logi Einarsson Skoðun Stefán Einar og helfarirnar Hjálmtýr Heiðdal Skoðun 96,7 prósent spila án vandkvæða Sigurður G. Guðjónsson Skoðun 109 milljarða kostnaður sem fyrirtækin greiða ekki Sigurpáll Ingibergsson Skoðun Þeytivinda í sundlaugina og börnin að heiman Guðmundur Ari Sigurjónsson Skoðun Hver ákveður hver tilheyrir – og hvenær? Jasmina Vajzović Skoðun Smiðurinn, spegillinn og brunarústirnar Davíð Bergmann Skoðun Manstu eftir Nagorno-Karabakh? Birgir Þórarinsson Skoðun
Íslendingar eru í öðru sæti yfir þjóðir sem nota mest af ólöglegum hugbúnaði. Aðeins Aserbaídsjan er fyrir ofan Ísland á lista tímaritsins The Economist yfir þær þjóðir sem hafa mest af illa fengnum hugbúnaði í hverri tölvu. Meira en helmingur þess hugbúnaðar sem er í notkun í íslenskum tölvum, eða 53 prósent, er tekinn ófrjálsri hendi. Þetta er um það bil tvöfalt hærra hlutfall af stolnum hugbúnaði en er í notkun á hinum Norðurlöndunum ef marka má árlega rannsókn alþjóðlegra samtaka hugbúnaðarframleiðenda, Business Software Alliance. Í rannsókn þeirra samtaka komast Norðmenn næst Íslendingum í hlutfalli ólöglegs hugbúnaðar með 29 prósent en á öðrum Norðurlöndum er hlutfallið lægra. Hugverkaþjófnaður er vissulega landlægur ósiður. Svo virðist sem virðing fyrir eignarétti sé minni ef um hugverk er að ræða heldur en þegar fengist er við áþreifanlega hluti. Dæmi um þetta eru birtingar og fjölföldun á ljósmyndum og texta sem algeng er án þess að til komi leyfi eða greiðsla fyrir. Um þverbak keyrir svo í umgengni við hugbúnað og annað efni sem tengist tölvum, svo sem tónlist og kvikmyndir sem hægt er að hlaða niður af netinu eða fjölfalda og flytja á milli tölva með öðrum hætti. Þjófnaður á hugbúnaði er í engu frábrugðinn öðrum þjófnaði. Þegar hugbúnaður er tekinn ófrjálsri hendi jafnast það á við að ganga inn í verslun, taka það úr hillum sem mann vanhagar um og fara svo út án þess að greiða fyrir vöruna. Eða kannski er nær að nota þá samlíkingu að þjófnaður á hugbúnaði sé eins og að ráða smið til starfa en láta sér ekki detta í hug að greiða honum laun fyrir vinnu sína. Stuldur á hugbúnaði er vissulega ekki eins sýnilegur og þessi dæmi en engu að síður er um sambærilegan þjófnað að ræða. Vara er tekin og notuð án þess að greiða fyrir hana. Óhætt er að taka undir orð Halldórs Jörgenssonar, framkvæmdastjóra Microsoft á Íslandi, um að þessi stórfelldi þjófnaður á hugbúnaði sé hugverkaþjóð til skammar. Það er áreiðanlega rétt mat hjá Friðriki J. Skúlasyni tölvunarfræðingi að flestar opinberar stofnanir og stærri fyrirtæki séu með hugbúnaðarmál sín í þokkalegu lagi. Vandinn liggur áreiðanlega fyrst og fremst í heimilistölvum almennings, sem gerir ekki vandann átækilegri. Ljóst er að gagnger hugarfarsbreyting þarf að koma til í umgengni við hugbúnað og annað tölvutækt efni. Almenningur í landinu verður að hætta að líta á þessa hluti eins og almenningseign og horfast í augu við að fyrir hugbúnað þarf að greiða eins og annan varning sem tilheyrir neyslu nútímamannsins. Þeir sem ekki gera það eru einfaldlega þjófar.