Viðskipti erlent

Ríkasti Rússinn kaupir í Kanada

Oleg Deripaska. Kanadískir fjölmiðlar eru ánægðir með aðkomu eins af ríkustu mönnum Rússlands í hluthafahóp Magna International.
Oleg Deripaska. Kanadískir fjölmiðlar eru ánægðir með aðkomu eins af ríkustu mönnum Rússlands í hluthafahóp Magna International. MYND/AFP

Rússneski milljarðamæringurinn Oleg Deripaska hefur keypt ráðandi hlut í kanadíska stórfyrirtækinu Magna International, sem framleiðir ýmsa íhluti í bíla. Kaupverð nemur 1,54 milljörðum bandaríkjadala, jafnvirði 98,6 milljarða íslenskra króna.

Magna International er eitt þeirra fyrirtækja sem hafði hug á að kaupa Chrysler-hluta þýsk-bandaríska bílaframleiðandans DaimlerChrysler. Hann var hins vegar seldur til fjárfestingasjóðsins Cerberus á sunnudag. Fjölmiðlar í Kanada segja það góðar fréttir því Magna hafi litla reynslu af framleiðslu bíla og hefði orðið fyrir skelli vegna viðvarandi rekstrarvanda Chrysler. Magna geti því einbeitt sér að framleiðslu sinni en á meðal viðskiptavina fyrirtækisins til margra ára er DaimlerChrysler. Þá horfir fyrirtækið til vaxtar í Evrópu og í Rússlandi.

Oleg er einn af ríkustu mönnum Rússlands. Á meðal eigna hans er álfyrirtækið Rusal og tæpur 10 prósenta hlutur í bandaríska bílaframleiðandanum General Motors. Sömuleiðis á Deripaska rússneska bílaframleiðandann Gaz, annan stærsta bílaframleiðanda Rússlands sem þekktastur er fyrir að framleiða bíla undir merkinu Volga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×