Viðskipti innlent

Eigendaskipti hjá verktakafyrirtækinu Háfelli

Starfsmenn Háfells að helluleggja við Hringbraut í byrjun árs 2006. Færsla Hringbrautar er eitt stórra verkefna sem fyrirtækið hefur tekið að sér.
Starfsmenn Háfells að helluleggja við Hringbraut í byrjun árs 2006. Færsla Hringbrautar er eitt stórra verkefna sem fyrirtækið hefur tekið að sér. MYND/Vilhelm

Gengið hefur verið frá sölu á öllu hlutafé í verktakafyrirtækinu Háfelli ehf. Eiður H. Haraldsson og fjölskylda, sem rekið hafa félagið frá árinu 1986, hafa selt allt sitt hlutafé til félags í eigu Skarphéðins Ómarssonar og Jóhanns Gunnars Stefánssonar. Fyrirtækjasvið KPMG hafði umsjón með sölu félagsins.

Að því er fram kemur í tilkynningu um eigendaskiptin mun Eiður starfa áfram hjá félaginu og veita ráðgjöf. Nýju eigendurnir eru jafnframt sagðir þekkja vel til verktakastarfsemi. Aukinheldur hefur Skarphéðinn, en hann tekur við sem nýr forstjóri, unnið með eigendum Háfells undanfarin ár. Hann kveðst mjög ánægður með áfangann. „Við ætlum að renna styrkari stoðum undir rekstur félagsins til að það haldi áfram að vaxa og dafna, eigendum og starfsmönnum til hagsbóta,“ er eftir honum haft.

„Háfell hefur starfað við fjölmörg vandasöm verkefni á undanförnum árum,“ segir í tilkynningunni og gerð Héðinsfjarðarganga í samvinnu við tékkneska fyrirtækið Metrostav sem lýkur árið 2009, sagt stærsta verkið. Meðal annarra verkefna Háfells á undanförnum árum má nefna tvöföldun Reykjanesbrautar, færslu Hringbrautarinnar og endurgerð Sæbrautar auk fjölmargra stærri og smærri verka á sviði vega- og gatnagerðar. Hjá Háfelli starfa um 60 manns.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×