Viðskipti erlent

Kvöldverður með Rupert Murdoch

Fortune | Eins og kunnugt er lagði ástralski fjölmiðla­jöfurinn Rupert Murdoch fram fimm milljarða dala yfirtökutilboð í útgáfufélag dagblaðsins Wall Street Journal. Ráðandi hluthafar í félaginu höfnuðu tilboðinu hið snarasta. Murdoch mun horfa til þess að nýta félagið sem stuðning við viðskiptafréttastöð sem hann ætlar að setja á laggirnar síðar á árinu.

Í bandaríska viðskiptatímaritinu Fortune rifjar greinarhöfundur blaðsins upp kynni sín af kvöldverði með fjölmiðlajöfrinum og fleira fólki fyrir tveimur árum. Að sögn greinarhöfundar var umræðuefnið möguleikar háhraðatenginga. Murdoch, sem hafði þá aðeins fjárfest í sjónvarpi, dagblöðum og útvarpi, sat íhugull mestanpart og hlustaði á umræðurnar. Murdoch mun hafa gert sér grein fyrir mikilvægi netmiðlunar því skömmu síðar keypti hann nokkur netfyrirtæki, þar á meðal netveituna MySpace og það nokkru áður en hún var jafn vinsæl og hún er í dag.

Greinahöfundur segir líkur á að Murdoch muni reyna hvað hann geti til að sannfæra Bancroft-fjölskylduna, sem fer með meirihluta atkvæðaréttar í útgáfufélaginu, sem sömuleiðis heldur úti fréttaveitunni Dow Jones, að selja sér fyrirtækið. Mun hann halda áfram að bjóða betur þar til fjölskyldan sér ekki annað fært en að taka boðinu, að sögn Fortune.

Nýr forstjóri fullur iðrunar

Guardian | Tony Hayward, hinn nýráðni forstjóri breska olíufélagsins BP, sem tók við af hinum ólánsama Lord Browne, mun funda með George Bush, forseta Bandaríkjanna, í vikunni og mun þá bera fram afsökunarbeiðni fyrir hönd fyrirtækisins. Fyrirtækinu er gefið að sök að hafa borið ábyrgð á slælegum öryggismálum við olíuhreinsistöð fyrirtækisins í Texas í Bandaríkjunum en þegar sprenging varð þar fyrir tveimur árum létust 15 þarlendir starfsmenn fyrirtækisins og 180 slösuðust.

Mun fyrirtækið eiga yfir höfði sér nokkrar málssóknir vegna þessa vestanhafs. Breska dagblaðið Guardian segir þetta merki um nýja stefnu hjá BP og hinum nýja forstjóra fyrirtækisins, sem vilji hreinsa fyrir sínum dyrum nú þegar hann hefur tekið til starfa á eftir hinum ólánsama Lord Browne, sem sagði starfi sínu lausu í byrjun mánaðar, tveimur mánuðum fyrr en hann ætlaði. Það er hins vegar fjarri að Browne sé laus allra mála þótt hann hafi gengið út um dyr BP fyrir fullt og allt.

Í dag mun hann fara til fundar við lögfræðing sinn í Bandaríkjunum og mun þurfa að svara fyrir ástæðu þess að öryggismál voru í ólestri í olíuhreinsistöð fyrirtækisins í Bandaríkjunum. Óvíst er hvað það muni síðan leiða af sér en ekki þykja líkur á að Browne muni sjá fram á jafn ljúfa tíma eftir að hann hætti hjá BP og hann ætlaði í fyrstu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×