Innlent

Eiturlyfjum smyglað inn á Landspítalann

Geðdeild LSH. Reykskýli við innganginn er notað til viðskipta með eiturlyf. Pakkar með lyfjum hafa fundist á lóð spítalans.
Geðdeild LSH. Reykskýli við innganginn er notað til viðskipta með eiturlyf. Pakkar með lyfjum hafa fundist á lóð spítalans. MYND/E.ól

Fíkniefnasalar smygla eiturlyfjum til sjúklinga sem eru til meðferðar á Landspítalanum. Vandinn er mestur á geðsviði spítalans þar sem fíklar leita sér meðferðar. Starfsmenn hafa fundið pakka með fíkniefnum á lóð spítalans sem eru ætlaðir sjúklingum auk þess sem notaðar sprautunálar finnast reglulega við byggingar spítalans. Vandinn hefur verið til staðar lengi en yfirlæknir á geðsviði LSH segir vandann bundinn við hóp ógæfufólks.

Aðalsteinn Pálsson, sviðsstjóri byggingarsviðs LSH, segir spítalann vera sem þversnið af sam­félaginu og ekki undanskilinn þeim vandamálum sem þjóðfélagið hefur við að glíma. „Við höfum haft rökstuddan grun um það í gegnum tíðina að sjúklingar fái eiturlyf afhent inni á sjúkrahúsum. Við höfum einnig fundið pakka inni í steinhleðslum á lóð spítalans sem einhver hefur átt að koma og sækja.“ Aðalsteinn segir að stjórnendur spítalans séu í góðu sambandi við lögreglu, sem bregðist fljótt við þegar við eigi. „Þegar grunur leikur á um að viðskipti eigi sér stað höfum við alltaf samband við lögreglu.“

Bjarni Össurarson, yfirlæknir vímuefnadeildar við geðsvið LSH, segir vandann ekki nýtilkominn. „Á meðferðarstofnunum er alltaf nokkuð um neyslu og þá er lyfjum smyglað þar inn. Við verðum alltaf að hafa augun opin fyrir þessu því þetta gerist reglulega hvar sem er.“ Bjarni leggur áherslu á að um afmarkaðan hóp fólks sé að ræða sem sé í harðri neyslu. „Megnið af fólkinu sem hingað leitar er venjulegt fólk í fíknivanda og kemur hvergi nærri þeim vandamálum sem hér koma upp.“ Bjarni segir að nú standi til að bæta aðstöðu spítalans, eins og til dæmis reykingaaðstöðu við inngang geðdeildar­innar þar sem vitað sé að fíkniefnaviðskipti fari fram. „Einnig þarf að leysa hvernig á að taka á fólki sem getur verið hættulegt og því er sífellt verið að leita leiða til að bæta öryggismálin. Það er því verið að reyna að bregðast við þessu eins og mögulegt er,“ segir Bjarni.

Samkvæmt upplýsingum frá fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuð­borgar­svæðinu eru reglulega höfð afskipti af „einstaklingum í annarlegu ástandi“ sem leita sér meðferðar á LSH. Í þeim tilfellum þar sem fíkniefni hafa fundist á víðavangi við sjúkrahúsið hefur verið um litla neysluskammta að ræða, að sögn lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×