Viðskipti innlent

Úthýsa gömlu ljósaperunni

Með því að skipta út hefðbundnum ljósaperum fyrir svokallaðar sparperur er hægt að minnka losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið.
Með því að skipta út hefðbundnum ljósaperum fyrir svokallaðar sparperur er hægt að minnka losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið.

Stjórnvöld í Ástralíu hafa í hyggju að banna hefðbundnar glóðarperur á næstu þremur árum. Í stað þeirra er horft til þess að auka notkun sparneytnari ljósgjafa á borð við flúorperur sem nota einungis 20 prósent af því rafmagni sem hefðbundnar perur nota. Gangi þetta eftir verða Ástralar fyrsta þjóðin til að banna notkun glóðarljósapera.

Malcolm Turnball, umhverfismálaráðherra Ástralíu, segir í samtali við breska ríkisútvarpið að þetta sé ekki mikil bylting fyrir neytendur en hafi umtalsverða kosti í för með sér. Helsti kosturinn er sá að með ljósaperuskiptunum verði hægt að minna losun gróðurhúsalofttegunda um fjögur milljón tonn árið 2012.

Ráðherrann segist vona að stjórnvöld fleiri landa fylgi í fótspor Ástrala. Eitthvað virðist vera að þokast í þá átt því ríkisstjórn Kaliforníuríkis í Bandaríkjunum mun þegar hafa komið með svipaðar tillögur. Það var Thomas Edison sem fann upp ljósaperuna árið 1879 og hafa þær lítið breyst fyrr en á síðustu árum þegar sparneytnari ljósaperur komu á markað.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×