Lífið

Trippaskinn í tísku

Karl Bjarnason segir skinn vera í tísku, sérstaklega hjá erlendum ferðamönnum sem sýna mikinn áhuga á trippaskinni.
Karl Bjarnason segir skinn vera í tísku, sérstaklega hjá erlendum ferðamönnum sem sýna mikinn áhuga á trippaskinni.

Eftirspurn eftir sútuðu skinni til skrauts fer vaxandi hér á landi. Sjálfstætt starfandi sútarar eru aftur á móti fáir á Íslandi, reyndar aðeins tveir titlaðir sem slíkir í símaskránni. Fréttablaðið sló á þráðinn til Karls Bjarnason sútara norður á Sauðárkróki.

„Skinn eru í tísku um þessar mundir og ég finn að eftirspurnin er að aukast,“ segir Karl um stöðu sútunar hér á landi. Skinnin sem hann sútar eru aðallega þeirrar gerðar sem hengd eru upp á veggi eða höfð á gólfi. „Það leita margir til mín með skinn til að súta, aðallega hreindýraveiðimenn en líka bændur. Ég verð líka var við að erlendir ferðamenn eru farnir að sýna þessu meiri áhuga. Trippaskinn nýtur mikilla vinsælda hjá þeim. Ég geri mest út á íslenska litinn í skinnunum en fjölbreytnin í þeim er alveg ótrúleg.“

Karl hefur starfað við sútun allar götur síðan 1983 en hefur starfað sjálfstætt síðastliðin þrjú ár eða svo. „Sem stendur er þetta aukabúgrein hjá mér en það er alltaf nóg að gera.“ Það er þónokkur vinna að súta skinn og hver tegund þarfnast sérstakrar meðferðar en Karl segir að ferillinn taki yfirleitt um það bil þrjár vikur. „Verðið fer eftir hverju verkefni fyrir sig en það er ekki óalgengt að ég taki 20-25 þúsund krónur fyrir. Oftar en ekki kemur það fólki á óvart að þetta kostar ekki meira.“

Auk þess að súta skinn hefur Karl þróað nýja tegund af fluguhnýtingarefni með góðum árangri. „Ég bý það til úr hrosshárum. Menn segja mér að þau séu mjúk og auðveld í meðförum en samt það stinn að þau fari vel í straumvatni. Þeir sem hafa prófað þetta efni eru að minnsta kosti ánægðir og margir sýnt þessu áhuga,“ segir Sigurður að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.