Erlent

Sýrlendingar og Ísraelar voru nærri samkomulagi

Gólanhæðir eru enn bitbein Ísraels og Sýrlands. Ísraelar hertóku hæðirnar árið 1967 og Sýrlendingar vilja fá þær aftur.
Gólanhæðir eru enn bitbein Ísraels og Sýrlands. Ísraelar hertóku hæðirnar árið 1967 og Sýrlendingar vilja fá þær aftur. MYND/AP

Fulltrúar frá Ísrael og Sýrlandi höfðu í nærri tvö ár stundað samningaviðræður með leynd og voru komnir með drög að friðarsamkomulagi þegar Líbanonstríðið braust út síðastliðið sumar. Frá þessu skýrði ísraelska dagblaðið Haaretz í gær.

Samkvæmt frásögn blaðsins höfðu samningamennirnir náð samkomulagi um að Ísraelsher færi alfarið frá Gólanhæðum, sem Ísrael hertók frá Sýrlandi árið 1967, en í staðinn myndu sýrlensk stjórnvöld hætta öllum stuðningi við herskáa hópa Palestínumanna.

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, segir þó að viðræðurnar hafi ekki verið á vegum ísraelskra stjórnvalda heldur alfarið verið einkaframtak einstaklinga. Starfsmaður utanríkisráðuneytisins í Sýrlandi segir fréttir af slíkum viðræðum tilhæfulausar með öllu.

Hins vegar staðfesti talsmaður ísraelsku stjórnarinnar, sem vildi ekki láta nafns síns getið, að ísraelskir ráðamenn hefðu vitað af þessum viðræðum þótt ekki hefðu þær verið á vegum stjórnvalda.

Dagblaðið heldur því fram að bæði ísraelsk og sýrlensk stjórnvöld hafi vitað af viðræðunum, sem haldnar voru í nokkur skipti í Evrópu á árunum 2004 til 2006.

Bashar Assad Sýrlandsforseti hefur nýverið látið í ljós vilja til að halda áfram friðarviðræðum við Ísrael. Olmert hefur hins vegar sagt að ekki komi til greina að hefja viðræður fyrr en Sýrlendingar hafi hætt stuðningi við herskáa andstæðinga Ísraels.

Bandaríkjastjórn hefur einnig hafnað því að hefja viðræður við Sýrlendinga en sakar þá um að aðstoða baráttu súnní-múslima í Írak gegn bæði sjíum og bandaríska herliðinu þar. Síðast í gær féllu að minnsta kosti 65 manns í árásum á sjía-hverfi í Bagdad í Írak.

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur verið á ferð um Mið-Austurlönd að afla fylgis ráðamanna þar við nýja stefnu Bandaríkjastjórnar í Írak. Leiðtogar sumra arabaríkja hafa sagst reiðubúnir að aðstoða Bandaríkin við að stilla til friðar í Írak gegn því að Bandaríkin leggi sig meira fram við að finna lausn á deilu Ísraela og Palestínumanna.

Í gær hitti hún Saud al-Faisal prins í Sádi-Arabíu, sem sagðist ekki hafa mikla trú á að árangur næðist í Írak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×