Erlent

Til minningar um Túrkmenbashi

Einn nafntogaðasti einræðisherra í heimi, forseti Túrkmenistans, lést úr hjartaáfalli í nótt. Þar með lýkur einni taumlausustu sjálfsdýrkun sem um getur í seinni tíð en ekki er víst að þegnar hans fái þrátt fyrir allt til baka nokkuð af þeim mannréttindum sem þeir hafa farið á mis við í valdatíð hans.

Saparmurat Niyazov bauð þegnum sínum að kalla sig Túrkmenbashi, eða föður allra Túrkmena, og hafði veitt sjálfum sér lífstíðar forsetatign. Hann er frægur að endemum fyrir sjálfsdýrkun og framúrstefnulegar hugmyndir sem brosað hefur verið að úr fjarlægð. Myndir og styttur af honum eru hvarvetna í landinu, helst þessara minnismerkja er gullstytta af honum sem snýr alltaf í átt að sólinni. Að sögn Niyazovs finnst honum þó ekki eftirsóknarvert að sjá andlit sitt alls staðar, heldur er það fólkið sem krefst þess.

Skólakerfið kennir börnum að elska leiðtogann og bókasöfn bjóða ekki upp á gagnrýna hugsun, heldur einungis bækur eftir Niyazov sjálfan. Meðal forvitnilegra forsetaúrskurða sem hann hefur látið frá sér fara eru að segja bestu tannhirðuna vera að tyggja bein og að láta lækna sverja hollustueið við forsetann í stað þess Hippókratesareiðsins.

Hörð gagnrýni mannréttindasamtaka á hendur honum beinist meðal annars að ákvörðunum á borð við að loka öllum sjúkrahúsum á landsbyggðinni, með þeirri skýringu að landsbyggðarbúar geti bara komið til höfuðborgarinnar til aðhlynningar. Einnig lokaði hann öllum bókasöfnum á landsbyggðinni með þeim rökum að Túrkmenar lesi ekki. Þá sagði hann upp 15 þúsund læknum og hjúkrunarfræðingum og ákvað að kennarar myndu lækka niður í lágmarkslaun nema þeir skrifuðu lofgrein um forsetann og birtu í öðru af tveimur dagblöðum.

Búið er að útnefna arftaka hans til bráðabirgða, varaforsætisráðherra landsins, Kurbanguly Berdymukhamedov stjórnar landinu í bili. Ekki er hins vegar víst að úrbætur verði í landinu með nýjum leiðtoga, þar sem tilkynnt hefur verið að ekki verði stefnubreyting frá stefnu Túrkmenbashis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×