Erlent

Dæmdur fyrir morð á ferðamönnum

Dómari í Afríkuríkinu Úganda sakfelldi í dag uppreisnarmanninn Jean Paul Bizimana, öðru nafni Xavier van Dame,  fyrir morð á átta ferðamönnum og einum innfæddum leiðsögumanni sem voru í hópi þrjátíu ferðamanna sem voru að ferð um þjóðgarð í Úganda árið 1999.

Jean Paul var sakaður um að hafa myrt 2 Bandaríkjamenn, 2 Nýsjálendings, 4 Breta auk leiðsögumannsins. Refsing verður ákvörðuð á föstudaginn. Þrír aðrir voru handteknir vegna morðanna og framseldir til Bandaríkjanna vegna gruns um að hafa átt aðild að morðunum á bandarísku ferðamönnunum.

Uppreisnarmennirnir réðust á 30 manna hóp ferðamanna sem voru að skoða górillur í þjóðgarði sem liggur nálægt landamærunum að Rúanda. Uppreisnarmennirnir rændu 17 enskumælandi ferðamönnum úr hópnum og neyddu þá til að ganga berfætta nokkra leið. 8 ferðamenn týndu lífi á leiðinni en uppreisnarmenn murkuðu úr þeim lífið með sveðjum og þungum bareflum. Talið er að einhverjum fórnarlambanna hafi verið nauðgað áður.

Níu sluppu lifandi frá ódæðismönnunum og einn þeirra bar með sér skilaboð til bandarískra og breskra stjórnvalda að láta það vera að skipta sér af innanríkismálum í Rúanda á þeim tíma. Vildu uppreisnarmenn þar með að þessar þjóðir drægju úr stuðningi við nýja stjórn í Rúanda.

Bizimana var handtekinn nálægt landamærunum að Rúanda fyrir tveimur árum og fluttur til Kampala, höfuðborg Úganda. Hann var liðsmaður í her Rúanda árið 1994 en herinn átti stóran þátt í þeim þjóðarmorðum sem þá voru framin en þá var hálf milljón manna myrt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×