Erlent

Sharon sýni lífsmark í fyrsta sinn í dag frá heilablóðfalli

MYND/REUTERS

Sharon er farinn að anda upp á eigin spýtur en læknar tóku í morgun að vekja hann af rúmlega fjögurra sólahringa löngum svefni. Enn er þó of snemmt að meta hvort hann hafi orðið fyrir alvarlegum heilaskemmdum vegna heilablóðfallsins sem hann fékk í síðustu viku. Einn lækna Sharons segir að könnuð hafi verið viðbrögð forsætisráðherrans við sársauka og hann hafi hreyft bæði hægri handlegg og hægri fót. Sharon er enn tengdur við öndunarvél og enn í öngviti. Engin von er talin til að hann snúi aftur í stjórnmálin.

Líklegast er talið að Ehud Olmert gegni forsætisráðherra embættinu áfram fram að kosningum í lok mars.

Ein fyrsta mikilvæga ákvörðun Olmerts í embætti verður að ákveða hvort Palestínumönnum sem búsettir eru í Austur-Jerúsalem verði leyft að taka þátt í þingkosningum Palestínumanna 25. janúar næstkomandi.

Ísraelar hafa áður lýst því yfir að palestínskum frambjóðendum sem óski þess að stunda kosningabaráttu verði gert að sækja um leyfi til ísraelsku lögreglunnar. Þannig verði samtökum á borð við Hamas bannað að gera slíkt. Palestínskir stjórnmálamenn hafa hafnað því.

Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna, segir að stjórnvöld í Bandaríkjunum hafi í dag fullvissað hann um að þau munu gera það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að Palestínumenn í Austur-Jerúsalem fái að kjósa í þingkosningum. Abbas hafði orð á því í síðustu viku að til greina kæmi að fresta kosningunum ef það fengist ekki í gegn. Því höfnuðu nokkrir andstæðingar Abbas í kosningunum. Bandarísk stjórnvöld hafa ekki tjáð sig um ummæli Abbasar frá í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×