Erlent

Ótti við fuglaflensu í austur Tyrklandi

Gangar sjúkrahúss í bænum Dogubayazit í Van-héraði í Austur-Tyrklandi voru yfirfullir í dag þar sem foreldrar flykktust þangað með börn sín ef þau sýndu nokkur flensueinkenni. Talsmaður sjúkrahússins segir að rúmlega fjörutíu hafi leitað þangað af ótta við smit.

Staðfest var í dag að þriðja barnið, ellefu ára gömul stúlka, hefði látist af völdum fuglaflensu af H5N1 stofni í bænum. Fyrr í vikunni lést fimmtán ára gamall bróðir stúlkunnar og síðan fjórtán ára gömul systir þeirra. Sú sem lést í dag hefur þegar verið lögð til hinstu hvílu við hlið systkina sinna. Bróðir þeirra liggur en á sjúkrahúsi en líðan hans mun hafa skánað nokkuð. Talið er að systkinin hafi smitast eftir að þau höfðu leikið sér með höfuð af dauðum kjúkling sem mun hafa drepist úr sjúkdómnum.

Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni hefur bærinn, sem liggur nálægt landamærunum að Íran, verið settur í sóttkví og er byrjað að fella fugla á búgarðinum þar sem systkinin bjuggu.

Sérfræðingar fylgjast vandlega með þróun H5N1 stofnsins þar sem óttast er að hann kunni að stökkbreytast og smitast þar með auðveldlega milli manna. Fuglar í Rúmeníu, Rússlandi og Króatíu hafa nýlega greinst með fuglaflensu af H5N1 stofninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×