Erlent

Bush varði símahleranir Þjóðaröryggisstofnunarinnar

George Bush Bandaríkjaforseti á Brooke-hersjúkrahúsinu í gær.
George Bush Bandaríkjaforseti á Brooke-hersjúkrahúsinu í gær. MYND/AP

George Bush Bandaríkjaforseti varði njósnir bandarísku Þjóðaröryggisstofnunarinnar og hleranir á símtölum bandarískra ríkisborgara án dómsúrskurðar þegar hann ræddi við fréttamenn eftir heimsókn til særðra hermanna í Brooke-hersjúkrahúsinu í Texas í gærkvöldi.

Bush sagði hleranirnar á símtölum meintra hryðjuverkamanna löglegar auk þess sem þær væru mikilvægar til þess að að koma í veg fyrir árásir hryðjuverkamanna í landinu. Þá sagði hann það hafa valdið þjóðinni miklum skaða að upplýsingum um hleranirnar hefði verið lekið í fjölmiðlam, en bandaríska stórblaðið New York Times greindi frá því í síðasta mánuði að hlernirnar hefðu farið fram frá árinu 2002 án þess að fyrir þeim væru leyfi.

Bush minnti á að ráðist hefði verið á þjóðina ellefta september árið 2001 og frá þeim degi hefði hann heitið því að beita öllum þeim löglegu aðferðum sem hægt væri til þess að verja bandarísku þjóðina fyrir frekari hryðjuverkaárásum. Hann myndi halda því áfram.

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hóf á föstudag rannsókn á því hvernig upplýsingum um hleranirnar var lekið í fjölmiðla en í Washington hafa fjórir þingmenn, þar af tveir repúblikana, lagt til að skipuð verið rannsóknarnefnd sem kanna á hleranirnar og hvort fullyrðingar Bush-stjórnarinnar um að þær sé löglegar séu réttar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×