Viðskipti innlent

Faxaflóahafnir taka upp Vigor-kerfi

Sigurður Bergsveinsson framkvæmdastjóri og Gísli Gíslason hafnarstjóri handsala samninginn. Aðrir á myndinni eru, frá vinstri: Theodór Ottósson og Linda Kristmannsdóttir frá TM Software og Gunnbjörn Marinósson og Ragnar Eggertsson frá Faxaflóahöfnum.
Sigurður Bergsveinsson framkvæmdastjóri og Gísli Gíslason hafnarstjóri handsala samninginn. Aðrir á myndinni eru, frá vinstri: Theodór Ottósson og Linda Kristmannsdóttir frá TM Software og Gunnbjörn Marinósson og Ragnar Eggertsson frá Faxaflóahöfnum. Mynd/Motiv. Jón S

Faxaflóahafnir og TM Software hafa undirritað samning um umfangsmikla innleiðingu á Vigor-viðskiptahugbúnaði hjá Faxaflóahöfnum.

Með nýja búnaðinum á að bæta verkefnastýringu og upplýsingavinnslu Faxaflóahafna, auk þess sem fjarvinnslumöguleikar kerfisins eiga að einfalda starfsmönnum að vinna með viðskiptagögn óháð því hvar þeir eru staddir.

Í samningi fyrirtækjanna felst meðal annars að innleidd verða fjárhagskerfi, samþykktar- og skönnunarkerfi, vörukerfi, innheimtukerfi, greiðslukerfi, verkbókhald, verðbréfa- og skuldabréfakerfi og aðrar einingar Vigor-hugbúnaðarins. Faxaflóahafnir tóku fyrir tæpu ári í notkun launakerfi Vigor og færist því núna rekstrarstjórnunin að mestu yfir í eina heildstæða viðskiptalausn.

Gunnbjörn Marinósson, deildarstjóri tölvu- og upplýsingamála Faxaflóahafna, telur Vigor-kerfið meðal annars hafa verið valið vegna góðrar reynslu af þjónustu TM Software. „Þá er Vigor-kerfið nútímalegur hugbúnaður sem alfarið er þróaður á Íslandi og ber innlendum hugbúnaðariðnaði gott vitni,“ segir hann.

Í tilkynningu TM Software kemur fram að þróun á Vigor-viðskiptahugbúnaðinum hafi verið afar hröð síðustu ár. „Meðal þess sem unnið hefur verið að undanfarið er nýtt greiningakerfi (OLAP) sem birtir rekstrartölur þvert á bókhaldslykla og er raðað upp eftir þörfum notenda. Nýtt og öflugt áætlanakerfi auðveldar fjármála- og deildarstjórum að bera saman áætlun og rekstrarstöðu auk þess sem mikil vinna hefur verið lögð í að þróa rafrænar tengingar við fjármálafyrirtæki. Verkbókhaldið er hannað þannig að það geti sinnt ólíkum þörfum fyrirtækja varðandi utanumhald verka og framkvæmda,“ segir þar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×