Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hækkaði um tæp sjö prósent síðastliðna viku og stendur í rúmum 5.800 stigum. Bréf ellefu félaga af fimmtán hafa hækkað. Vísitalan hefur ekki verið hærri síðan snemma í júní á þessu ári og hefur nú hækkað um tæp fjögur prósent frá áramótum.
Segja má að bankarnir hafi leitt hækkanirnar, enda vega þeir þungt í úrvalsvísitölunni; bréf í KB banka og Landsbankanum hafa hækkað um tólf prósent en bréf í Glitni um rúm sjö. Bréf í FL Group hafa þó hækkað allra mest, um rétt tæp þrettán prósent. Þá hafa bréf í Flögu hækkað um tæp ellefu prósent.
Bréf þriggja félaga lækkuðu undanfarna viku; rúmlega fimm prósenta lækkun hefur orðið á bréfum Dagsbrúnar, Straumur-Burðarás hefur lækkað um 0,6 prósent og Actavis um 0,2 prósent.
Bréf héldu áfram að hækka í Kauphöllinni í gær og hafði úrvalsvísitalan hækkað um tæpt prósent um hádegisbilið.