Fastir pennar

Skrípamyndamálið í Danmörku - önnur tilraun

Fyrir nokkrum vikum, þegar skrípamyndamál Jótlandspóstsins var að komast í hámæli, skrifaði ég grein hér í blaðið þar sem meginhugsunin var sú það væri kannski ekki nógu sniðugt að hafa gengið svona fram af múslímum "bara af því maður má það". Ég benti á að skrípamyndirnar kæmu inn í visst samhengi þar sem hefðu verið myndir úr Abu Grahib fangelsinu og fregnir af misþyrmingum í Guantanamo á fólki sem enginn vissi um hvað væri sakað. Mér fannst sú ábending að við stunduðum sjálfsritskoðun þegar kæmi að trúargrillum múslima fremur léttvæg enda stunduðum við sjálfritskoðun alla daga til þess einfaldlega að geta talist húsum hæf - ég vildi meina að tillitsemi væri dyggð. Ég sagði eitthvað á þá leið það hlyti að vera dálítill munur á bókum þeirra Salmans Rushdie og Taslimu Nasreen þar sem þau báru af miklu hugrekki mikilvægt vitni eigin samfélögum og svo aftur tilraunum Jótlandspóstsins til að ögra að því er mér virtist þá valdalitlu jaðarsamfélagi í Danmörku með staðal-skrípamyndum.



Síðan þá hefur mikið verið öskrað. Margir fánar hafa brunnið, margar heitingar verið hafðar í frammi og það verður að segjast eins og er að eftir því sem dagarnir hafa liðið við æsingar út af þessum myndum hefur manni reynst erfiðara að umbera alla þessa óskaplegu móðgun út í Dani. Vissulega var rétt að hafa þetta allt í huga sem ég nefndi hér að ofan, þegar maður reynir að átta sig í þessu gjörningaveðri öllu ¿ og líka hitt að við hér í Evrópu lifum í vellystingum á meðan mannkynið líður skort - en þegar ég lít nú um öxl finnst mér engu að síður að mér hafi í fyrri grein minni yfirsést aðalatriði málsins, eða kannski ekki áréttað það nógsamlega í vonlítilli löngun til að vera ekki dreginn í umræðudilk. Kannski fannst mér það gefið.

En það er aldrei gefið.

Maður þarf ekki að hugsa sig óskaplega lengi um til að komast að niðurstöðu um það hver kjarni málsins hlýtur að vera eins og málið snýr við okkur. Þegar maður ýtir til hliðar samlíðan með fólki sem hefur minnimáttarkennd út af oft óljósri og stundum alltof ljósri andúð í sinn garð; þegar maður ýtir til hliðar sárindum múslima yfir því hvernig setið er yfir þeirra hlut víða um lönd; þegar maður ýtir til hliðar hneykslun yfir því sem manni virðist óþarfar tilraunir til að ala á úlfúð og hatri í stað þess að leitast við að draga úr mikilvægi trúarinnar í samfélaginu; og þegar maður ýtir til hliðar þeirri vissu að fjölmenning er ekki bara kjánaleg hippaþvæla heldur staðreynd sem við verðum að gjöra svo vel að búa við og reyna eftir megni að gera gott úr með því að nýta hæfileikann til að láta okkur lynda við ólíkt fólk - þegar maður ýtir með öðrum orðum til hliðar öllum þessum þjóðfélagsmálum og réttlætismálum þá snýst kjarni þessa máls ósköp einfaldlega um tjáningarfrelsið, sem er hornsteinn vestrænna þjóðfélaga.

Tjáningarfrelsið er aldrei gefið. Í þessari deilu er maður um síðir neyddur til að taka afstöðu og þá tekur maður afstöðu gegn þeim sem vilja skerða tjáningarfrelsið út af eigin móðgunarstuðli.

Svo ringlaður var maður orðinn í því undarlega andrúmslofti sem ríkt hefur í heiminum allt frá innrásinni í Írak að maður hafði allt í einu skilning á froðufellandi bræði nokkurra trúfífla yfir því að einhverjir aðrir voguðu sér að gera gys að trú þeirra með nokkrum einföldum skrípamyndum.

Það er einmitt innifalið í þessum hornsteini vestrænna þjóðfélaga að hver og einn hefur fullan rétt til þess að gera gys að trú annarra. Ég veit ekki nema mér hafi í fyrri grein minni orðið það á að rugla saman hagsmunum hins venjulega múslíma sem vill geta stundað sína vinnu í friði við aðra og brauðfætt sína fjölskyldu og svo múllanna, ímananna eða hvað þeir heita nú allir þessir kuflakarlar í flóknu regluverki íslams í Evrópu sem með miðaldabábiljum sínum og hatursfullum málflutningi eru langtum skæðari ógn við okkar lýðræði og frjálsræði en skrípamyndateiknarar Jótlandspóstsins.

Í þessu máli öllu sannast enn hið fornkveðna að hlátrinum verða erkiklerkarnir sárreiðastir því að ekkert er betur til þess fallið að grafa undan veikluðu valdi en skopið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×