Fastir pennar

Skattahækkunarbrella Stefáns Ólafssonar

Talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa hælt sér af því að hafa lækkað skatta. Stefán Ólafsson heldur því hins vegar fram, að þetta sé aðeins brella. Skattar á láglaunafólk hafi hækkað. Almenningur klórar sér í kollinum. Fjölmiðlafólk, sem hefur raunar fæst haft fyrir því að kynna sér málið út í hörgul, hefur hins vegar flýtt sér að fella úrskurð Stefáni í vil: Skattalækkanir ríkisstjórnarinnar voru brella. Hér ætla ég að andmæla þessu. Brella Stefáns er sama eðlis og ýmis fyrri upphlaup hans.

Stefán Ólafsson vakti fyrst á sér athygli í sjónvarpsþætti með Milton Friedman föstudagskvöldið 31. ágúst 1984. Stefán spurði, hvort Friedman þætti ekki einkennilegt, að selt væri inn á fyrirlestur hans í Háskóla Íslands. Fyrirlestrar erlendra fræðiskörunga hefðu jafnan áður verið ókeypis, svo að allir gætu sótt þá óháð efnahag. Friedman svaraði að bragði, að hugtakið "ókeypis" væri hér fráleitt. Fyrirlestrar væru ekki ókeypis. Far og uppihald fyrirlesarans kostaði sitt, samkomusalinn þyrfti að leigja, auglýsa fundinn og svo framvegis. Velja mætti um tvo kosti. Annar væri að láta þá, sem sæktu fyrirlesturinn, greiða fyrir hann. Hinn væri að láta þá, sem ekki sæktu fyrirlesturinn, greiða fyrir hann. Sér fyndist fyrri kosturinn eðlilegri.

Stefán vakti líka mikla athygli fyrir þingkosningarnar 2003. Þá var eitt aðalkosningamál Samfylkingarinnar, að fátækt á Íslandi hefði aukist í miðri velmeguninni. Á sama tíma hélt Stefán fyrirlestra um, að fátækt hefði hér aukist. Þegar að var gáð, var fátæktarhugtakið Stefáns óvenjulegt. Hann miðaði við ójafna tekjuskiptingu. Flest skiljum við fátækt sem skort. Það er, þegar móður vantar fyrir mat handa barni sínu. En Stefán skilur fátækt sem hlutfall, samanburð. Það er, þegar einn maður fær að vísu áfram 100 þúsund krónur í mánaðartekjur, en annar maður, sem hafði áður fengið 500 þúsund krónur, hlýtur nú 750 þúsund krónur. Þá hefur fátækt aukist í skilningi Stefáns.

En við sjáum að bragði, að þessi hugtakanotkun hefur fráleitar afleiðingar. Samkvæmt þessu yrði tekjuskipting jafnari, hefði Björgólfur Guðmundsson flust úr landi. Þá hefði fátækt minnkað eftir skilningi Stefáns! En við vitum öll, að ekkert er eins líklegt til að auka fátækt og að hrekja ríkustu menn landsins burt. Þessi hugtakanotkun Stefáns var villandi, sérstaklega í því andrúmslofti, sem jafnan er skömmu fyrir kosningar.

Skattahækkunarbrella Stefáns er svipaðs eðlis. Hann horfir fram hjá mikilvægustu staðreyndunum. Stefán viðurkennir, að ríkið hefur lækkað tekjuskatt á einstaklinga. Það hefur raunar líka lækkað tekjuskatt á fyrirtæki og erfðaskatt og fellt niður aðstöðugjald og eignaskatt. En Stefán segir, að skattbyrðin á lægstu laun hafi aukist, vegna þess að persónuafslátturinn, sem allir njóta, hefur ekki aukist jafnhratt og laun. Gallinn við málflutning Stefáns er sá, að hann gerir ekki skýran greinarmun á skattheimtu og skatttekjum. Skattheimta breytist til dæmis, þegar skattur er lækkaður úr 50% í 30%. Skatttekjur breytast hins vegar eftir öðrum lögmálum: Það getur til dæmis verið, að 30% af stórri upphæð sé miklu meira en 50% af lítilli, svo að skatttekjur aukist við lækkun skattheimtu. (Það gerðist raunar, þegar ríkið lækkaði skatttekjur á fyrirtæki úr 50% í 30% í byrjun tíunda áratugs.)

Hér á Íslandi hafa tekjur margra vegna almennra framfara hækkað umfram persónuafsláttinn, svo að þeir greiða tekjuskatt, en greiddu hann ekki áður. Skattstofninn hefur með öðrum orðum breikkað. Skattheimtan hefur ekki aukist, en skatttekjur ríkisins hafa aukist. En þetta er ánægjulegt. Þetta merkir ekkert annað en það, að fleiri eru aflögufærir en áður og geta greitt tekjuskatt. Það er líka eðlilegt að hækka persónuafsláttinn hægt:

Hann á ekki að miðast við, hversu hratt almennar tekjur hækka, heldur við hvað þarf til að komast af. Stefán ætti að fagna því, að fleiri eru aflögufærir en áður. Það er æskilegt, að sem flestir séu sjálfstæðir borgarar. Hitt er annað mál, að það á að halda áfram að lækka skatta.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×