Innlent

Danskir teiknarar dæmdir til dauða af Pakistönskum trúflokki

Einn af stærstu trúflokkum Pakistans hefur dæmt tólf danska teiknara til dauða, og lagt fé til höfuðs þeim. Leyniþjónusta dönsku lögreglunnar hvetur teiknarana til þess að gæta varúðar.

Sök dönsku teiknaranna er sú að þeir teiknuðu myndir af Múhameð spámanni, eins og þeir sáu hann fyrir sér. Teikningarnar voru birtar í danska blaðinu Jyllands posten, og vakti mikla reiði múslima, bæði innan Danmerkur og utan.

Trúflokkurinn Jamat-e-islami, í Pakistan, hefur nú dæmt teiknarana til dauða og heitið hálfri milljón króna hverjum þeim sem myrðir einhvern þeirra. Jafnframt hefur flokkurinn, og ungliðahreyfing hans, krafist þess að sendiráði Danmerkur í Pakistan verði lokað, og allir danskir sendimenn reknir úr landi.

Sendiherra Danmerkur, í Pakistan, segir að það beri að taka þessum hótunum af fullri alvöru. Þegar svona mál komi upp sé viðbúið að ofsatrúarmenn hlýði kallinu, og að ef þeir nái ekki til þeirra sjálfra sem hafa verið dæmdir til dauða, geti þeir alveg tekið upp á því að ráðast á einhverja aðra Dani, einhversstaðar annarsstaðar.

Sendiherrann segir að ekki komi til greina að loka sendiráðinu, og að stjórnvöldum í Pakistan hafi verið gerð grein fyrir málinu.

Leyniþjónusta dönsku lögreglunnar tekur málið einnig alvarlega og hefur hvatt teiknarana tólf til þess að gæta fyllstu varúðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×