Innlent

Skýra verði betur útgáfu íbúðabréfa

Ríkisendurskoðun telur brýnt að mæla með skýrari hætti fyrir um í lögum hvernig standa eigi að útgáfu íbúðabréfa Íbúðalánasjóðs við þær aðstæður sem nú eru á markaði. Með hliðsjón af þeim miklu hagsmunum sem eru í húfi sé brýnt að stjórnvöld og löggjafinn bregðist skjótt við til að eyða óvissu um starfsheimildir sjóðsins.

Ríkisendurskoðun kannaði ekki fjárhagsstöðu Íbúðalánasjóðs þar sem Fjármálaráðuneytið og Félagsmálaráðuneytið ákváðu í júní að fela ráðgjafarfyrirtækinu Ráðgjöf og efnahagsspá, það verkefni. Ekkert bólar hinsvegar á þeirri úttekt. Ríkisendurskoðun reynir hinsvegar að skoða vandann sem sjóðurinn stóð frammi fyrir vegna mikilla uppgreiðslna og aðgerðir til að bregðast við honum. Einkum er sjónum beint að lánasamningum við banka og sparisjóði fyrir um áttatíu og fimm milljarða króna.

Fjármálaeftirlitið telur að lánasamningarnir hafi verið í samræmi við lög en Ríkisendurskoðun telur að betra hefði verið ef lagagrundvöllurinn hefði verið skoðaður betur og treystur. Hafa verði í huga að á tæpu ári hafi sjóðurinn lánað bönkunum allt að tuttugu prósent af efnahag sjóðsins til fjörutíu ára á grundvelli ónákvæmra lagafyrirmæla sem lúti að áhættustýringu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×