Innlent

Ríkinu stefnt í fimmta sinn

Mál Öryrkjabandalags Íslands gegn Íslenska ríkinu var þingfest í héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Heilbrigðisráðherra segir að samkomulag um hækkun lífeyris hafi verið fullefnt með einum milljarði króna. Hann sagði hins vegar annað fyrir tveimur árum. Lögmaður Öryrkjabandalagsins segir stefnuna ekki snúast um krónur, heldur kjarabætur öryrkja.

Stefnan er 16 blaðsíður en í sem stystu máli hljómar hún svona: Gert var samkomulag í ársbyrjun 2003 um að tvöfalda grunnlífeyri ungra öryrkja, úr 22 þúsund krónum í 44 þúsund, en síðan átti að hækkunin að lækka hlutfallslega því eldri sem einstaklingar hlytu örorku. Var gert ráð fyrir að sú lækkun yrði 421 króna á ári til 67 ára aldurs. Það markmið hefur þó ekki náðst samkvæmt stefnunni.

Fyrsta kostnaðarmat Tryggingastofnunar gerði ráð fyrir að framlag stjórnvalda þyrfti að nema 1,2-1,4 milljörðum á ári. Þann 25. mars 2003 var svo haldinn sameiginlegur blaðamannafundur þar sem samkomulagið var kynnt. í Fréttatilkynningu var þá sagt:"Samkvæmt útreikningum [...] ráðuneytis verður kostnaður við þessa hækkun [...]rúmur einn milljarður króna á ársgrundvelli."

Þegar fjárlög voru kynnt síðar sama ár kom í ljós að verja átti einum milljarði í samkomulagið, en í millitíðinni hafði það verið metið á rúman einn og hálfan.

Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra sagði í ræðu á Alþingi þegar deilt var á þá ákvörðun:"Miðað við þær heimildir sem ég hef þarf hins vegar að áfangaskipta þessu samkomulagi. En það stendur ekki til annað en að standa við það eins og það stendur."

Í fréttum NFS í gær sagðist Jón hins vegar engar áhyggjur hafa af málinu enda teldi hann að samkomulagið hefði verið að fullu efnt. Sigríður Rut Júlíusdóttir lögmaður öryrkjabandalagsins er þessu ósammála.

Hún segir öryrkja ekki hafa samið um tiltekna peningaupphæð heldur hækkun eftir því sem lýst var í samkomulaginu og það hafi ekki verið efnt. "Kostnaður við það samkomulag kemur í sjálfu sér Öryrkjabandalaginu ekki við," sagði Sigríður Rut í samtali við NFS.

Ríkislögmaður hefur nú tvo mánuði til að skila greinargerð í málinu áður en því verður fram haldið.

Stefna Öryrkjabandalagsins gegn ríkinu er sú fimmta á hendur sitjandi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, ef með er talin málshöfðun á hendur Davíð Oddssyni, fyrrum forsætisráðherra, vegna minnisblaða sem hann neitaði að upplýsa Öryrkjabandalagið um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×