Fastir pennar

Refilstigur og ribbaldakapítalismi



Mogginn er alltaf að vonast eftir "þáttaskilum". Tveir afskaplega mætir menn, Jónas H. Haralz, fyrrverandi bankastjóri, og Jóhann J. Ólafsson stórkaupmaður skrifa grein í blaðið í gær og velta því fyrir sér hvort viðskiptalífið á Íslandi sé á refilstigum. Segir meðal annars í greininni:

"Er frelsi viðskiptanna að leiða til þess að eignir og áhrif þjappist saman hjá fáum fyrirtækjum og einstaklingum, sem hika ekki við að misbeita aðstöðu sinni, ekki í atvinnulífinu sjálfu heldur jafnvel einnig í stjórnmálum og í þjóðlífinu öllu? Eru útrásarfyrirtækin, studd af íslenskum bönkum, að ráðast í ævintýraleg viðskipti, sem ekki eiga stoð í heilbrigðum rekstri? Eru eigendur og stjórnendur þessara fyrirtækja að draga sjálfum sér stórfé út úr rekstrinum? Erum við ef til vill að ganga í gegnum svipað ribbaldaskeið ungs kapítalisma, sem Bandaríkin gerðu í byrjun tuttugustu aldar, Svíar nokkru seinna og Rússar og aðrar þjóðir, sem brotist hafa undan áþján kommúnismans, hafa mátt þola undanfarin ár. Ef í þetta stefnir, hvað er þá til ráða?"

--- --- ---

Styrmir Gunnarsson tekur þetta svo upp í leiðara í blaðinu í dag. Telur jafnvel að grein þeirra Jónasar og Jóhanns kunni að valda "þáttaskilum" í umræðunni. Jú, einmitt. Vangaveltur bankastjórans fyrrverandi og stórkaupmannsins eru góðra gjalda verðar, fákeppnin hérna er vissulega vandamál, en svonalagað þarf auðvitað að styðja með dæmum. Hver nákvæmlega eru hin ævintýralegu viðskipti útrásarfyrirtækja sem ekki eiga sér stoð í heilbrigðum rekstri? Hvaða eigendur fyrirtækja eru að draga sér stórfé út úr rekstrinum?

Ekki hefur Mogginn upplýst okkur um það – hvað þá hin gagnslausu viðskiptablöð sem hér koma út og ganga aðallega út að sleikja sig upp við peningamenn en koma almenningi furðulega lítið við. Og þar er viðskiptablað Moggans ekki undanskilið.

--- --- ---

Það er eins og Styrmir Gunnarsson vilji ekki fatta hversu lítill hljómgrunnur er fyrir því áhugamáli hans að setja lög gegn auðhringum. Fyrir þessu virðist vera nákvæmlega engin stemming. Innan þingsins verður ekki séð að nokkur maður ætli að bera þetta mál fram og þess er heldur ekki að vænta frá ríkisstjórninni – hversu gott og gagnlegt sem það gæti verið.

Fyrir nokkrum vikum voru Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í þætti hjá mér að ræða hvort þyrfti að bregðast sérstaklega við einokun og fákeppni. Þær voru sammála um að svo væri ekki, umfram það sem stendur í samkeppnislögum sem reyndar er nýskeð búið að breyta, að miklu leyti eftir forskrift nefndar um viðskiptalífið sem Valgerður skipaði. Það er samsagt nýbúið að setja lög, líkt og gamall stjórnmálamaður, Björgvin Guðmundsson, bendir á í grein á vefsíðu sinni.

--- --- ---

Hallgrímur Helgason lætur aðalpersónu sína í Roklandi tuða og nöldra og fárast yfir samtímanum. Það er svosem nóg að hneykslast yfir. Hjá Bödda Steingríms eru það fyrirbæri eins og enski boltinn, rokk og stjörnudýrkun sem eru dæmi um andlega auðn. Hallgrímur fer á kostum í lestri sínum yfir samtíðinni. Efnið í Roklandi gæti ábyggilega dugað í margar stólræður hjá prestastéttinni. Maður hefur heyrt svipaðan tón hjá biskupnum yfir Íslandi, þótt ekki hafi hann sömu ákefðina í framsetningunni og Hallgrímur.

Það getur að sönnu þyrmt yfir mann. Í blaði sem heitir Sirkus var um daginn fjallað um "Ally McBeal-væðingu þjóðfélagsins". Hún mun felast í því að sætar stelpur fara í lögfræði. Merkilegt. Á sama tíma keppast sjónvarpsstöðvarnar við að ráða fegurðardrottningar í vinnu við að stjórna þáttum. Það er eins gott að ekki eru gerðar sömu kröfur til karla – þá hefði maður ekki komist langt.

Er kannski fremur um að ræða bullvæðingu þjóðfélagsins?



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×