Viðskipti innlent

Actavis kaupir Alpharma

Actavis Group hefur gengið frá samningi um kaup á samheitalyfjastarfsemi alþjóðlega lyfjafyrirtækisins Alpharma. Kaupverðið nemur 810 milljónum dala eða um 50 milljörðum króna. Með kaupunum er Actavis orðið eitt af fimm stærstu samheitalyfjafyrirtækjum heims. Sameiginlegt fyrirtæki verður með starfsemi í 32 löndum og um 10.000 starfsmenn. Eftir kaupin verður Actavis með sterka markaðsstöðu í Bandaríkjunum og Evrópu en um 35% af tekjum fyrirtækisins munu koma frá Bandaríkjunum. Kaupin eru háð samþykki samkeppnisyfirvalda og búist er við að gengið verði formlega frá kaupunum í desember á þessu ári. Sameinað félag býr yfir fjölbreyttu lyfjaúrvali með yfir 600 lyf á markaði og hefur yfir 200 lyf í þróun og skráningu. Framleiðslugeta Actavis eykst verulega með verksmiðjum Alpharma í Bandaríkjunum, Bretlandi, Noregi, Kína og Indónesíu. Gert er ráð fyrir að velta Actavis verði yfir 1,3 milljarðar evra sem samsvarar áttatíu milljörðum króna á árinu 2006. Actavis hefur tryggt sér um 1.413 milljónir evra til að fjármagna kaupin og endurfjármagna meirihluta núverandi skulda félagsins. Alþjóðlegi bankinn UBS tryggir 808 milljóna evra lán til 5 ára og 250 milljóna evra veltulán. Íslandsbanki hf. og Landsbanki Íslands hf. tryggja 354 milljónir evra sem forgangshlutabréf.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×