Erlent

Haglél tefur hjálparstarfið

Óveður á hamfarasvæðunum í pakistanska Kasmír hamlaði hjálparstarfi í gær en hjálpargögn berast nú víða að. Eftir því sem lengra líður frá skjálftanum þverra líkurnar á að fleiri finnist á lífi. Aðstæður á hamfarasvæðunum í Kasmír eru afar erfiðar. Tæpar þrjár milljónir manna sem misst hafa heimili sín hafast við í tjöldum eða undir berum himni, þrátt fyrir haustkuldann. Í gær gerði óveður á svæðinu með éljagangi og hvössum vindi og stöðvuðust því um tíma allar flugferðir með vistir frá Islamabad, höfuðborg Pakistan. Hvað sem veðrinu líður hafa ókjör af matvælum og öðrum nauðsynjum verið flutt á vettvang. Amjad Jamal, talsmaður Matvælaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna, sagði í viðtali við sjónvarpsstöðina CNN að 120 tonn af mat væru þegar komin, sem eiga að duga 240.000 manns í fimm daga, og að ráðgert væri að halda þeirri aðstoð áfram. Sameinuðu þjóðirnar hafa beðið aðildarríki sín um að láta sextán milljarða króna af hendi rakna til fórnarlamba jarðskjálftans. Bandaríkjamenn hafa hvatt Atlantshafsbandalagið til að senda útbúnað frá herstöðvum sínum í Afganistan á hamfarasvæðin og er fastlega búist við að NATO verði við þeirri beiðni. Alger eyðilegging blasir við á þeim svæðum sem verst urðu úti. Heilu þorpin hafa þurrkast út, vatn er af skornum skammti og óttast er að farsóttir geti farið að breiðast út. Stjórnvöld í Pakistan telja að 41.000 manns hafi týnt lífi í skjálftanum en við þann fjölda bætast svo 1.240 dauðsföll í Indlandi og Afganistan. Formælandi íslamskra hjálparsamtaka sem eru á störfum á svæðinu kvaðst álíta að allt að 80.000 manns hefðu beðið bana. Í gærmorgun fundust tveggja ára stúlka og móðir hennar grafnar undir blokk sem hrundi í Islamabad. Björgunarsveitir hafa því ekki gefið upp alla von um að finna fleiri á lífi en eftir því sem tíminn líður minnka líkurnar á því. Talið er að Osama bin Laden, leiðtogi al-Kaída, hafi hafst við í fjallahéruðum svæðisins þegar skjálftinn reið yfir. Engar upplýsingar hafa hins vegar borist um afdrif hans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×