Erlent

Byggðir að sökkva vegna hlýnunar

Byggðir í Alaska eru hreinlega að sökkva vegna hlýnunar á norðurslóðum og lífverur eru í vanda á svæðinu vegna breytts umhverfis. Í gær voru birtar gervihnattamyndir sem sýndu að ekki hefur verið minni ís á Norðurpólnum í heila öld. Íshellan gæti verið horfin innan hundrað ára ef fram fer sem horfir. Ísinn hefur minnkað um 30 prósent síðan árið 1978 og bráðnunin verður sífellt hraðari. Íbúar Alaska hafa ekki farið varhluta af hlýnun loftslagsins á norðurhveli. Jarðvegurinn verður gljúpur í þíðunni, vegir og önnur mannvirki sökkva í drullu og óæskilegum skordýrum fjölgar ört. Það sem er að gerast í Alaska er fyrirboði þess sem koma skal í öðrum heimshlutum, segja vísindamenn við lífríkis- og loftslagsrannsóknarstöðina í Alaska. Meðalhitinn hefur hækkað úr tveimur gráðum á Selsíus í þrjár á síðustu fimmtíu árum í Alaska sem er mun meiri hækkun en annars staðar í heiminum. Mestu hitabreytingarnar eru á veturna og vorin. En hvað veldur eru menn ekki á eitt sáttir um þótt margir vísindamenn segi þetta að minnsta kosti að hluta til rekja til gróðurhúsaáhrifa. Skordýrum í þessum heimshluta hefur fjölgað til muna og munar þar mestu um skaðann af þeim sem naga sundur timbur. Það hefur aftur afar slæmar afleiðingar fyrir skógana sem einnig eru þurrari vegna hitans og skógareldar því tíðari. Vegir eyðileggjast í þíðunni og hús í sumum þorpunum síga niður í jörðina um leið og frostið fer úr jörðu. Íbúar þorpsins Shishmaref á Chukchi Sea eyju finna rækilega fyrir þessu. Þeir eru nú að undirbúa flutning þorpsins þar sem húsin eru hreinlega að sökkva og landið í raun orðið óbyggilegt. Á gervihnattamyndunum og rannsóknum sem NASA og Háskólinn í Washington birtu í gær, sést glögglega hversu mikið ísinn hefur minnkað. Breyttar aðstæður hafa einnig skapað erfiðleika fyrir ýmsar dýrategundir, til dæmis hvítabirni, sem stunda veiðar á ísbrúninni. Hlýrri hafstraumar hafa breytt laxagöngum og gert norðurslóðir að meira aðlaðandi stað fyrir ýmis meindýr sem leggjast á laxinn. Norðurhvelið gæti nú verið fast í erfiðri víxlverkun, segja vísindamennirnir. Um leið og ísinn hverfur verður minna eftir til að endurkasta geislum sólarinnar, segir Vladimir Romanovsky, vísindamaður við Fairbanks-háskóla í Alaska, og fleiri dökk svæði sem gleypa í sig hitann. Þannig er fyrirséð að það verði sífellt hlýrra á norðurslóðum eftir því sem ísinn bráðnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×