Erlent

Enn óljóst um tölu látinna

Minningarathafnir um fórnarlömb hryðjuverkaárásanna 11. september voru haldnar í nokkrum skugga fellibylsins Katrínar. Bandaríska þjóðin er enda rétt að gera sér grein fyrir því sem gerðist á hamfarasvæðunum í suðurhluta landsins og enn er langt þar til ljóst verður hversu margir týndu þar lífi. Mun betur gengur að dæla flóðavatni frá New Orleans en reiknað var með, svo borgin gæti verið orðin nokkurn veginn þurr um miðjan næsta mánuð. Nokkur þúsund íbúar neita enn að fara og svo virðist sem hótunum um að flytja þá á brott með valdi verði ekki fylgt eftir. Lögreglu- og hermenn sem ganga enn hús úr húsi nota leitarhunda til að finna lík. Staðfestur fjöldi látinna í Louisiana-ríki er sem stendur um þrjú hundruð en vitað er að fórnarlömbin eru mun fleiri. Nokkurn tíma mun taka að ganga í hvert einasta hús og leita að látnum og svo er eftir að sjá hvað kemur undan flóðavatninu þegar dælingu er lokið. Fjöldi látinna virðist þó vera mun minni en óttast var um tíma og standa vonir til að ekki þurfi að nota mestan hluta líkpokanna tuttugu og fimm þúsund sem pantaðir voru. Bandaríski Rauði krossinn bað í gær um 40.000 sjálfboðaliða til að hjálpa fórnarlömbum fellibylsins því brýn þörf sé að að þeir 36.000 sjálfboðaliðar sem nú eru við störf fái hvíld. Talsmaður Rauða krossins sagði að hjálparstarfið myndi halda áfram næstu mánuði og því þyrfti fleira fólk til að leysa af þreytta sjálfboðaliða sem hafa unnið sleitulaust dögum saman. Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna, heimsótti flóttamannabúðir í Texas í dag og mærði Texasbúa fyrir skjót og góð viðbrögð en vildi ekkert ræða um gagnrýnina á seinagang alríkisstjórnarinnar. George Bush Bandaríkjaforseti fór einnig í sína þriðju heimsókn á flóðasvæðin í dag en í útvarpsávarpi sínu í dag líkti hann uppbyggingunni sem framundan er í New Orleans við uppbygginguna í New York eftir árásirnar 11. september 2001. Stuðningur við Bush hefur aldrei mælst minni en nú eftir hamfarirnar, um 38%.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×