Sport

Börkur situr beggja vegna borðsins

Börkur Edvarsson, formaður knattspyrnudeildar Vals, sem sakaður er um að hafa rætt ólöglega við Atla Jóhannsson leikmann ÍBV fyrr í vikunni, situr í nefnd innan KSÍ sem sér um að endurskoða reglugerðir um félagaskipti og samninga. Börkur Edvardsson, formaður knattspyrnudeildar Vals, sem knattspyrnudeild ÍBV sakar um að hafa rætt ólöglega við Atla Jóhannsson fyrr í vikunni um möguleg félagaskipti hans til Vals, er einn af fimm meðlimum í milliþinganefnd KSÍ um félagsskipti og samninga. Að sögn Geirs Þorsteinssonar, framkvæmdastjóra KSÍ, hefur þessi nefnd það hlutverk að endurskoða reglugerðir um félagaskipti eftir hvert keppnistímabil og leggur til breytingar á þeim ef hún telur þess þörf, en Börkur var skipaður í þessa nefnd fyrir keppnistímabilið í ár. Geir segir að nauðsynlegt sé að þeir sem taki að sér störf í nefndinni kynni sér allar slíkar reglugerðir rækilega, en af vinnubrögðum Barkar í máli Atla, sem er samningsbundinn ÍBV út næsta sumar en Börkur ræddi samt sem áður við án vitundar knattspyrnudeildar ÍBV, má efast um hvort Berki sé sætt í þeirri nefnd. Í reglugerð KSÍ um samninga og stöðu leikmanna og félaga segir orðrétt í lið D2: "Félag, sem gerir sambandssamning, skuldbindur sig til að hlíta reglum KSÍ um félagaskipti leikmanna. Jafnframt skuldbindur félagið sig til þess að hafa ekki samband við samningsbundinn leikmann nema að fengnu leyfi frá viðkomandi félagi. Þó er heimilt að ræða við samningsbundinn leikmann eftir 15. október án leyfis viðkomandi félags, ef samningur hans rennur út eigi síðar en um næstu áramót." Börkur sagði við Fréttablaðið í fyrradag að ástæðan fyrir því að hann hefði haft samband við Atla væri vegna þess að hann hefði talið að samningur hans rynni út á þessu ári. Annað hefði hins vegar komið í ljós og í kjölfarið hefði hann beðið knattspyrnudeild ÍBV afsökunar, sem engu að síður hefur lagt inn kæru til KSÍ vegna málsins. Í áðurnefndri reglugerð segir hins vegar að það hefði engu skipt þótt samningur Atla hefði runnið út á þessu ári - Börkur hafði engan rétt til að ræða við hann fyrr en eftir 15. október. Aðspurður um hvort hann, sem fulltrúi nefndar sem sér um þessi mál innan KSÍ, hefði ekki átt að kannast við þetta ákvæði, kvaðst Börkur ekki vilja tjá sig meira um þetta mál. "Þetta er á milli okkar og Eyjamanna," sagði hann. Að sögn Geirs er kæra ÍBV komin í farveg innan KSÍ og segir hann að gagnaöflun og rannsókn málsins gæti tekið nokkrar vikur. Um setu Barkar í félagaskiptanefndinni sagði Geir að ef fótur væri fyrir ásökunum Eyjamanna þá væri hún vissulega óheppileg.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×