Sport

Tryggvi dansaði Rækjudansinn

Þegar blaðamenn hópuðust að Tryggva Guðmundssyni eftir að sigur FH var í höfn á sunnudaginn, hafði kappinn lítið að segja og virtist í mikilli sigurvímu. Hann lét þó ekki sitt eftir liggja í fagnaðarlátunum eftir leikinn og dansaði hinn svokallaða rækjudans fyrir káta stuðningsmenn FH sem ærðust af fögnuði. Þegar Fréttablaðið hafði samband við Tryggva í gær og spurði hann út í tilþrifin, kom í ljós að hann hafði fengið heilahristing eftir að boltanum var skotið í höfuð hans í leiknum og þurfti því að fara á slysadeild í athugun. "Ég man bara eiginlega ekkert eftir þessum leik í gær og mér skilst að ég hafi bara bullað tóma steypu í viðtölum eftir leikinn," sagði Tryggvi, sem var enn ekki alveg búinn að ná sér eftir höggið. "Þetta var mjög skrítinn dagur í gær. Ég var farinn að fara verulega í taugarnar á fólki, því ég var alltaf að spyrja hvernig leikurinn hefði farið og hverjir hefðu skorað. Ég var víst með einhver skemmtiatriði á slysadeildinni líka en ég man bara ekkert eftir því," sagði Tryggvi hissa á öllu saman. Þegar hann var spurður út í dansinn sem hann tók liggjandi á vellinum fyrir áhorfendur í leikslok, útskýrði hann að þar hefði verið á ferðinni "rækjudansinn". "Þennan dans bjó ég til þegar ég var úti í Tromsö á sínum tíma og ég kenndi strákunum í FH þennan dans þegar við vorum í æfingabúðunum úti í Portúgal í vor. Ég sagði þeim að ef við yrðum Íslandsmeistarar, skyldi ég taka þennan dans og ég varð auðvitað að standa við það," sagði Tryggvi, sem er áreiðanlega einn af fáum mönnum sem hafa skorað mörk í Landsbankadeildinni án þess að muna eftir því.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×