Sport

Schumacher hættur að spá

Heimsmeistarinn Michael Schumacher segist vera hættur að spá fyrir um gengi liðs síns í þeim keppnum sem eftir eru á árinu, því þær hafi ekki ræst fram að þessu. Schumacher státar af besta árangri allra ökumanna á brautinni í Montreal í Kanada, þar sem næsta keppni fer fram, en segist engu vilja spá um gengi síns liðs um helgina. "Ég hef nú ekki verið sérstaklega sannspár á gengi okkar það sem af er, svo ég er að hugsa um að segja ekkert núna," sagði Þjóðverjinn. "Ég veit að mér hefur gengið mjög vel á þessari braut í gegn um árin, en hin liðin hafa verið að gera frábæra hluti á þessu keppnistímabili og því er best að segja sem minnst. Það eina sem ég veit er að við munum bíta á jaxlinn og gefa allt í þessa keppni," sagði Schumacher. Lið Renault hefur unnið fimm keppnir í ár og McLaren hefur unnið tvær, en Ferrari er enn án sigurs og eru orðnir mjög langeygir eftir sigri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×