Sport

Landsbankadeildin í kvöld

Fjórir leikir fóru fram í Landsbankadeild karla í knattspyrnu í kvöld og eru Valur og FH enn með fullt hús stiga eftir leiki kvöldsins. KR tapaði óvænt heima fyrir Keflavík og ungu leikmennirnir tryggðu Skagamönnum nauman sigur á Grindavík uppá Skaga. Í Árbæ lögðu Valsmenn Fylkismenn með tveimur mörkum gegn einu. Matthías Guðmundsson gerði bæði mörk Vals en Valur Fannar Gíslason hafði í millitíðinni jafnað fyrir Fylki. Í Frostaskjólinu litu óvænt úrslit dagsins ljós. Keflvíkingar lögðu heimamenn í KR með tveimur mörkum gegn einu og skoraði Guðmundur Steinarsson bæði mörk Keflvíkinga. Bjarnólfur Lárusson skoraði mark KR-inga og jafnaði metin í 1-1. Ómar Jóhannesson, markvörður Keflavíkur, var síðan hetja gestanna er hann varði vítaspyrnu frá Arnari Gunnlaugssyni. Íslandsmeistarar FH-inga lentu ekki í teljandi erfiðleikum með lánlausa Vestmannaeyinga og sigruðu 3-0. Tryggvi Guðmundsson hélt uppteknum hætti og skoraði eitt af mörkum FH-inga, en þetta var fimmta mark hans í þremur fyrstu leikjum sumarsins. Allan Borgvardt og Atli Viðar Björnsson gerðu hin mörkin tvö. Uppá Akranesi voru ungu leikmennirnir í aðalhlutverki er Skagamenn lögðu Grindvíkinga með þremur mörkum gegn tveimur. Eftir að gestirnir komust yfir með marki frá Magnúsi Þorsteinssyni í fyrri hálfleik, jafnaði ungur og mjög efnilegur leikmaður, Hafþór Ægir Vilhjálmsson að nafni, metin með sínu fyrsta marki í Landsbankadeildinni. Hjörtur Júlíus Hjartarson kom Skagamönnum yfir áður en Mounir Ahandour jafnaði fyrir Grindavík. Það var síðan annar ungur leikmaður, Andri Júlíusson, sem gerði sigurmark Skagamanna með marki undir blálokin, einnig hans fyrsta mark í Landsbankadeildinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×