Sport

Ólafur dregur ummæli sín til baka

Ólafur Þórðarson, þjálfari Skagamanna í knattspyrnu, hefur dregið ummæli sín um Garðar Örn Hinriksson, dómara í efstu deild, til baka. Ólafur hélt því fram í fjölmiðlum í gær að Garðar Örn hataði ákveðna leikmenn ÍA og sakaði hann um hlutdrægni í dómgæslu sinni. Síðar um daginn sá hann að sér og hringdi persónulega í Garðar Örn þar sem málin voru útkljáð. "Ég bað hann afsökunar á að láta þessi ummæli falla. Ég geri mér grein fyrir því að þau áttu engan veginn heima í fjölmiðlum. Og ég bað hann innilega afsökunar á því," sagði Ólafur við Fréttablaðið í gær. Garðar Örn staðfesti að hann og Ólafur hefðu rætt saman og að hann hefði samþykkt afsökunarbeiðni hans. Ólafur hefði dregið til baka hvert orð og hann hefði að auki viðurkennt að vítaspyrnudómur Garðars í leik Vals og ÍA á mánudagskvöldið hefði líklega verið réttur. Málið sé því afgreitt af beggja hálfu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×