Sport

Heiðar bestur í öllu hjá Watford

Dalvíkingurinn Heiðar Helguson var maður kvöldsins í Watford í gærkvöldi á kvöldverðarsamkomu knattspyrnufélagsins þar sem hann hrifsaði þrjú stærstu verðlaunin sem í boði voru fyrir leikmenn liðsins á tímabilinu. Það gaf kvöldinu enn íslenskari keim fyrir utan það að Heiðar var valinn leikmaður tímabilsins að Brynjar Björn Gunnarsson varð annar í sama kjöri. Heiðar sem skoraði sigurmark Watford í 1-0 sigri á Stoke um helgina og tryggði liðinu áframhaldandi sæti í deildinni var einnig verðlaunaður fyrir bestu frammistöðuna í leik á tímabilinu. Það var í 5-2 sigrinum á úrvalsdeildarliði Southampton í deildarbikarnum þar sem hann skoraði glæsimark sem hann var einnig verðlaunaður sérstaklega fyrir sem fallegasta mark tímabilsins. Dagblaðið Watford Observer verðlaunaðar Heiðar sérstaklega af íþróttaristjóra blaðsins fyrir að vera fyrsti leikmaðurinn í sögu félagsins sem hrifsar öll þrjú stærstu verðlaunin á þessari árlegu lokasamkomu félagsins. Sjö leikmenn hafa tekið tvenn af þrennum verðlaununum í gegnum tíðina en Heiðar er sá eini sem tekur fyrrnefnda þrennu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×